29.11.07

Hvað kemur á eftir veðurfréttunum?

Fyrir tæpum tveimur áratugum byrjaði RÚV að sýna þætti sem vinur minn hafði heyrt að væru fyndnir. Hann tók upp fyrsta þáttinn, og svo næsta, og svo næsta. Innan tíðar var hann kominn með glæsilegan stafla af VHS-spólum, enda missti hann nær aldrei af þætti. Það varð síðan helgisiður hjá okkur félögunum að horfa á þessa þætti og gat það tekið bestan part úr degi því þeir voru hlaðnir óteljandi mörgum skemmtilegum smáátriðum sem þurfti gjarnan að spóla aftur til að skoða betur.

Í upphafi var Bart, og orðið var hjá Bart, og orðið var Bart. Simpson. Bart Simpson. Gulur strákur í fjórða bekk með fjóra putta á hvorri hendi, haldinn óseðjandi skemmdarfýsn sem hann sagði sjálfur að hefði alltaf inntak félagslegrar gagnrýni. Snemma færðist hins vegar fókusinn yfir á fjölskylduföðurinn Hómer, sem snerti hjörtu heimsbyggðarinnar með heimsku sinni, leti og takmarkalausu ofáti. Svo rammt kvað að vinsældum Hómers að íslenska þjóðin heiðraði hann með samnefndri sjoppu á Hverfisgötu sem fór leiftursnöggt á hausinn. Glæstir tímar.

Í þáttunum um Simpson-fjölskylduna er fjöldi lúmskra tilvísana sem fæstir skilja sem ekki eru komnir á miðjan aldur eða eru vel grúskaðir í sögu Bandaríkjanna. Persónugalleríið er afar víðtækt og mikil fræðiverk hafa verið rituð um vægi þáttanna sem ádeilu á flatneskju og bresti hinnar bandarísku þjóðarsálar. Samt smellvirka þeir sem teiknimyndir fyrir börn. Tæplega tveggja ára gömul dóttir mín er nú þegar orðin háð þáttunum, sem eru henni svo mikilvægir að þegar hún sér að veðurfréttirnar á Stöð 2 eru að verða búnar klappar hún saman lófunum í æsingi og kallar: „SIPPOOOOSS!" Ég sé fram á að endurnýja gömlu kynnin við Hómer, Marge, Bart, Lísu og Möggu með því að kaupa fullkomið safn þáttanna á DVD. Best væri auðvitað að fá spólusafnið góða lánað, en gamla VHS-tækið mitt er því miður löngu komið á haugana.

27.11.07

Hátíðisdagur




„A musican, if he's a messenger, is like a child who hasn't been handled too many times by man, hasn't had too many fingerprints across his brain. That's why music is so much heavier than anything you've ever felt. “
- Jimi Hendrix


26.11.07

Framsóknarflokkurinn leysir vandann

Úr ályktun SUF sem samþykkt var síðastliðinn þriðjudag:

„Stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna lýsir yfir þungum áhyggjum yfir stöðu mála á húsnæðismarkaði.
Verðmyndun á markaðnum sem og aðstæður á lánamarkaði gera það nú að verkum að ungu fólki er nánast ómögulegt að eignast sína fyrstu íbúð. Þá er leigumarkaðurinn ekki valkostur til lengri tíma enda leiguverð á íbúðarhúsnæði nú einnig í sögulegu hámarki.
Ungt fólk krefst raunverulegra aðgerða af hálfu stjórnvalda, enda ekki boðlegt að einu viðbrögð forsætisráðherra þjóðarinnar, séu að segja fólki að kaupa sér ekki húsnæði.
Þörf fólks fyrir húsnæði hverfur ekki þó forsætisráðherra kunni að óska sér þess. Stjórnvöld verða að stemma stigu við villtum dansi bankanna á markaðnum og standa vörð um Íbúðalánasjóð sem tryggir aðgang allra landsmanna að ódýru lánsfé, óháð búsetu.“

Okkur vantar einmitt meira ódýrt lánsfé til að hemja húsnæðismarkaðinn. Flott hjá ykkur, framsóknarmenn. Með ykkar 11,7 prósenta fylgi á landsvísu, og í ljósi frábærrar frammistöðu ykkar í húsnæðismálum sem öðrum málum, er hneyksli að þið séuð ekki í ríkisstjórn.

Ég bara ég - og Framsóknarflokkurinn

„Guðni Ágústsson lýsir því í nýrri ævisögu sinni að ódrengilegt hafi verið af formanni Framsóknarflokksins, Halldóri Ásgrímssyni, að hafa varaformann sinn ekki með í ráðum þegar Halldór og Davíð Oddsson ákváðu að styðja innrás Bandaríkjamanna í Írak.“

Þetta er frábær punktur hjá Guðna. Ekki var ég spurður, og ég er einmitt frekar spældur með það. Ég þekki engan sem var spurður, og ég veit að sumir eru ekki sáttir. Það eru reyndar allt hælbítar og kommúnistar sem fagna því gríðarlega að allt sé í klessu í Írak. Ekki var utanríkismálanefnd Alþingis spurð. En stóra málið er auðvitað að Guðni Ágústsson skuli ekki hafa verið spurður áður en íslenska þjóðin var látin styðja ólöglegt og forkastanlegt innrásarstríð sem hefur kostað hundruð þúsunda almennra borgara lífið. Þvílík svekking, þvílík niðurlæging að þurfa að heyra um þetta í fréttunum í bílnum eins og hver annar sauður. Sem Guðni ekki er. En það er nú gott að allt fór vel að lokum og Framsóknarflokkurinn þurrkaðist ekki algjörlega út.

http://www.visir.is/article/20071125/FRETTIR01/71125012

16.11.07

Ruslpósfyrirsögn dagsins

obtain a big penis Israel

9.11.07

Hafa skal það sem hendi er næst

Hver kannast ekki við að vinna langan vinnudag, fara í búð, koma heim, elda kvöldmat, borða og horfa svo á sjónvarpið fram að háttatíma? Þetta er kunnugleg lýsing á venjulegum virkum degi hjá fjölda fólks og langt frá því að vera versta rútína sem hægt er að ímynda sér. Þegar við skoðum ferlið nánar sjáum við hins vegar að hvert atriði snýst um að uppfylla grunnþörf, nema það síðasta, sjónvarpsglápið. Það er sem sagt alvanalegt að eina raunverulega ákvörðun dagsins um hvað eigi að gera við tímann sé að horfa á sjónvarpið. Þá fer allur frítíminn í það.

En hver kannast ekki líka við að hoppa á milli stöðva og finna ekkert áhugavert en velja bara það skásta og horfa á það? Það getur virst óyfirstíganleg hindrun að finna sér eitthvað annað að gera, jafnvel þó að það sé bara að taka fram bíómynd sem mann hefur langað að sjá (aftur). Stundum nennir maður ekki einu sinni að skoða sjónvarpsdagskrána, velja úr það sem mann langar virkilega að horfa á og halda sig við það. Lendingin er þá að finna eitthvað í sjónvarpinu sem maður getur sætt sig við, þótt maður hafi eiginlega engan áhuga. Valkvíði er ekki vandamálið, heldur skortur á löngun til að velja. Við berum ekki nægilega virðingu fyrir frítíma okkar til að taka ákvörðun um hvað við eigum að gera við hann.

Hrikalega erum við þreytt og slæpt og sinnulaus stundum. Ef við höfum varla orku í að lyfta fjarstýringunni, er þá furða að við nennum ekki að mynda okkur skoðanir á erfiðum málum heldur látum berast með straumnum? Þá er síðasti ræðumaður yfirleitt ræðumaður kvöldsins og meirihlutinn ræður öllu. Við þurfum að hrifsa til okkar ánægjuna af því að hugsa og taka sjálfstæðar ákvarðanir, og sjónvarpið er ekki slæm byrjun. Ein leið er að taka sér Groucho Marx til fyrirmyndar, en hann mælti þessi orð: „Mér finnst sjónvarpið mjög fræðandi. Alltaf þegar einhver kveikir á því fer ég í annað herbergi og les góða bók."

6.11.07

Traust

Fólk ryðst fram fyrir kyrrstæðar raðir til að sannreyna að dyr að kaffistofum séu læstar. Fólk teygir fram álkuna og skoðar gaumgæfilega hvort klósett séu ekki upptekin þó að aðrir standi óþreyjufullir fyrir utan. Og fólk gengur í myrkri vísvitandi fram fyrir bíla á ferð. Fólk er furðulegt.