19.8.08

Snarbrattur Hamarinn

Í dag er bjartur og fagur dagur, þannig að við skulum líta á örstutt myndskeið til að koma okkur í enn betra skap. Mikill meistari var Stallari Hamar og gæfa heimsins víðern að list hans hafi eitt sinn verið viðmið annarrar listar. En svo skipuðust veður í lofti vonum fyrr; launaskrá og blíng rifu af Hamrinum sjóhattinn og tróðu upp á hann hempu. Þó ekki fyrr en þetta stórvirki hafði litið dagsins ljós. Hentu í mig Hamrinum!

12.8.08

Hugleiðingar leikmanns um vindorku

Í kvöldfréttum Stöðvar tvö áðan var viðtal við efnafræðing sem vildi að kannaðir yrðu möguleikar á að virkja vindorku hér á landi. Þetta hljómar vel, ekki síst til að svala forvitni fólks eins og mín um málið. Af örstuttu Wiki-rápi sé ég nokkur atriði sem hafa þarf í huga:

Nútíma vindtúrbínur (?) eru engin smásmíði og flutningskostnaður þeirra á áfangastað er gríðarlegur.
Stofnkostnaðurinn er talsverður og mikils mannafla er krafist við uppsetningu. Viðhald er einnig dýrt.
Sjónmengun er allnokkur, enda mannvirkin allt upp í hundrað metrar á hæð.

Fleira má telja til, en kannski er umfang verkefnis af þessu tagi kostur þar sem atvinnuástand er bágt. Á vesturhluta Tjörness mætti alveg sjá fyrir sér röð af túrbínum eins og meðaltúristinn þekkir frá Eyrarsundi, án þess að útsýnið yfir Skjálfanda frá Húsavík liði fyrir. Ennishöfði á Ströndum er þó sá staður sem mér dettur helst í hug í ljósi eigin reynslu, enda er það örugg vindveita sem gæti þolað slíka útlitsbreytingu.

Því ekki vindorku? Ekki var stofnkostnaður vandamál við Kárahnjúka. Og ekki er útlit fyrir að lægi í bráð neins staðar á landinu.

6.8.08

Blátönn með rentu

Sælir, lesendur góðir. Í dag leita ég til ykkar með tæknilegt vandamál, þar sem ég er þess fullviss að einhver ykkar sé fullframaður á tölvuöld. Ég er sko með farsíma frá Nokia og vil færa myndir sem ég ef tekið á hann yfir í Hewlett-Packard fartölvuna mína. Síminn er með Bluetooth og tölvan á að vera með það líka en mér gengur engan veginn að láta tölvuna ná sambandi við símann. Bluetooth er greinilega í gangi í símanum þannig að mig grunar að tölvan sé vandræðagepillinn. Vantar mig einvers konar forrit í hana? Þarf ég að kaupa mér eitthvert stykki á hana til að ná sendingunni úr símanum? Voru það mistök að kaupa ekki einhverja forneskjulegri tegund af síma svo að ég gæti einfaldlega tengt hann við tölvuna með snúru? Eða hefði verið einfaldara fyrir Nokia að drullast til að hafa þannig port á símanum sem ég á?

Með kærri kveðju og von um svör,
Magnús