6.1.06

Hamingjuóskir

Pezkarlinn er 34 ára í dag. Hei! Til hamingju mar! Digídudibra?!

5.1.06

Bíósjanrö

Bíómyndir hafa löngum verið dregnar í dilka eftir umfjöllunarefni og tökum þess, eins og aðrar birtingarmyndir menningar. Bandaríski gagnrýnandinn og fitukeppurinn Roger Ebert telur til dæmis helstu flokka bíómynda vera þöglar myndir, vestra, dans- og söngvamyndir, gamanmyndir og svo framvegis. Í ljósi þessa telur hann hverju myndasafni nauðsynlegt að þar sé framúrskarandi fulltrúi hvers dilks, sumsé feitur sauður á borð við The Searchers, Safety Last eða Singin' in the Rain. Þetta er að sjálfsögðu úrelt og afkáralegt þvaður frá þessum útvatnaða gamla pylsuhaus, enda hefur hann ekki slysast upp úr hyldjúpum hjólförum meginstraumsþjösnagangs síðan hann átti hlut í að semja handritið að meistaraverkinu Beyond the Valley of the Dolls einhvern tíma áður en ég fæddist, og er ég þó orðinn granvaxinn og gráhærður.

Lesendur góðir, nútíminn hefur engin not fyrir djasshendur eða illa þefjandi beljusmala og hórkarla. Sjáið þið fyrir ykkur jakkafataklæddar kókaínryksugur í Hollywood sitja á fundi árið 2006 og spá í hvort sé betra að finna dans- og söngvamynd handa Jimmy Stewart eða reyna að setja hann á hestbak og láta hann muldra og skyrpa tóbaki? Neibb. Jimmy Stewart er nefnilega dauður. Og það eru gömlu flokkarnir líka. Til að færa skiptinguna upp að raunveruleikanum vil ég hins vegar leggja fram nokkra flokka sem hingað til hafa ekki notið sannmælis í teoríunni þó þeir valti yfir praxísinn.


Hálfvitamyndir
Framúrskarandi fulltrúi þessa flokks er Dumb & Dumber, með Beavis & Butt-head Do America fast á hæla henni. Þetta eru myndir sem fjalla um fífl og eru fíflalegar en samt fyndnar. Farrelly-fíflin hafa nota bene ekkert gert af viti síðan D&D og ég vil taka það skýrt fram að There's Something About Mary er ofmetið rusl. Svo er nóg til af rokgjörnu þunnildi eins og Dude, Where's My Car? og öllu þessu krappi með Owen Wilson sem rennur fyrir mér saman í einn blómkálsþefjandi bunka.

"This... is the president... of the UNITED STATES"-myndir
Harrison Ford er óumdeildur konungur þessa flokks og Air Force One er skyldueign, vilji maður eiga fulltrúa allra alvöru flokka í DVD-safninu sínu. Fordarinn er líka alveg skraddarasaumaður í herpinginn í Tom Clancy-myndunum. Algjört skilyrði að líta út eins og maður sé hægðatepptari en Vaidas til að ná árangri í þessari deild.

Tölvuleikjamyndir
Tomb Raider-myndirnar eru augljósir fulltrúar tölvuleikjamynda, ekki það að ég viti hvað þær eru margar eða myndi þekkja þær í sundur. Svo er nóg til af leðju eins og Doom, þar sem The Rock (hvers konar nafn er það eiginlega?) vinnur ótrúlegan leiksigur sem hæfileikalaust vöðvabúnt. En þessi flokkur er lúmskur, því sumar myndir sem ekki eru skilgreindar sem tölvuleikjamyndir eru eiginlega alveg eins, nema hvað í staðinn fyrir að bæta örlitlu plotti við tölvuleikinn er tekið örlítið plott og búin til mynd með því að bæta við sekvensum sem eru í eðli sínu eins og tölvuleikir. Charlie's Angels-myndirnar eru gott dæmi um þetta, eðlileg framþróun MTV-myndbandaskeiðsins sem læddist inn í bíómyndirnar á níunda áratugnum í myndum eins og Footloose. Ört vaxandi flokkur.

Ofurhetjumyndir
Batman, Superman, Spiderman, X-Men, Fantastic Four, Daredevil... ef það hefur verið gerð teiknimynd um það er gerð mynd. Og ef það er gerð mynd pakkast rassar í sæti og sölutölur á kóki og poppi hækka. Batman Begins var reyndar ágæt.

Holocaust-myndir
Þeir sem fara ekki að grenja yfir myndum um Helförina, eftirminnilegasta og langmerkilegasta þjóðarmorð allra tíma, sem aldrei má gleymast, hljóta að vera gyðingahatarar. Steven Spielberg, sem þýska ríkið sæmdi heiðursorðu fyrir þá mynd sem hann hefur dregið upp af atburðum seinni heimsstyrjaldar, er algjörlega óskoraður drottnari í þessum iðnaði og Schindler's List er möst fyrir þá sem fá aldrei nóg af því að vera minntir á þessa hörmung alla saman. Mjög mikið pótensjal fyrir sérflokka um skipulögð morð á Slövum, sígaunum, hommum, fötluðum, kommúnistum og svo framvegis. Stanslaust stuð.

Unglingahræðslumyndir
Scream er týpísk. I Know What You Did Last Summer líka. Og margar aðrar. Sætir krakkar og horror lite. Svona myndir leiða alltaf til endalausra framhaldsmynda og þessi flokkur mun aldrei deyja.

Myndir sem strákar pína sig til að horfa á með stelpum
Stundum kallaðar rómantískar gamanmyndir, sem er yfirleitt í besta falli misvísandi. Flest kvenfólk undir fertugu fílar svona myndir af einlægni en gagnkynhneigðir karlmenn láta sig aðeins hafa það að horfa á þær upp á félagsskapinn. Sweet November, Never Been Kissed, Bridget Jones's Diary, My Best Friend's Wedding, Four Weddings and a Funeral, Notting Hill og svo framvegis. Júlía Róberts pakkar þessum flokki saman.

Húddmyndir
New Jack City var forveri mynda í þessum flokki, miklu frekar en seventís-blökkumyndirnar sem voru bara eins og James Bond-myndir í amerískum stórborgum með klámmyndatónlist við. Boyz N the Hood er flaggberinn en Menace II Society og Juice eru týpískar. Þessi flokkur, sem pólitískir rangþenkjarar kölluðu á sínum tíma negralífsmyndir, virðist vera að víkja fyrir svörtum millistéttarmyndum eins og Brown Sugar. Ice Cube er á niðurleið, Taye Diggs á uppleið.

Dýrateiknimyndir
Mjááá. Teiknimyndir um sniðug dýr eru góð skemmtun fyrir alla fjölskylduna og nú virðist Disney vera að missa einokunartakið. Shrek og Finding Nemo og Ice Age og allt þetta gömbó: allar svipaðar í uppbyggingu en ágætar til síns brúks.

Vonandi leiðir þetta innslag til þess að þjóðir heims fari að líta hreyfimyndaflokkun öðrum og nútímalegri augum. Góðar stundir.

4.1.06

Endless lúð

Settu nafnið þitt í kommentakerfið og…

1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig.
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig.
3. Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig.
4. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér.
5. Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig.
6. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt lengi fyrir mér um þig.
7. Ef þú lest þetta verðurðu að setja þetta á bloggið þitt.

Ég er síðastur með þetta.

Viðauki og endurbót

Tvær konur sem hefðu átt að vera á listanum:

Kim Deal

og

Alicia Keys

Einhver sofandaháttur að hafa þær ekki með. Að síðustu legg ég til að hávaðasamir flugeldar verði bannaðir að viðurlögðum handarmissi.

2.1.06

Digg

Gleðilegt ár. Hér er bloggnördismi.

7 hlutir sem ég get:

1. Klístrað tuðrunni í sammarann með vinstri
2. Hrist fulla pönnu af fiski og grænmeti þannig að allt blandist og ekkert fari út fyrir
3. Hermt eftir Charles Montgomery Burns
4. Fært þriggja stafa tölu í annað veldi á innan við mínútu
5. Smellt fingrunum þannig að eftir er tekið
6. Straujað skyrtur af alúð og snerpu
7. Spilað riffið í Louie, Louie á píanó

7 hlutir sem ég get ekki:

1. Haldið kjafti
2. Sofnað eða vaknað á skikkanlegum tíma
3. Horft á formúluna
4. Synt skriðsund
5. Troðið
6. Breikdansað
7. Drukkið koníak


7 atriði sem ég segi oft:

1. "... með þvílíkt mannaskítsglott ..."
2. "Eastsii-EEEED!"
3. "Jæja, gömlu drullusokkar!"
4. "Hvað í andskotanum er þetta?!"
5. "Rassmörður!"
6. "Á ég ekki að skella krabba með?"
7. "Djöfuls Lampard grísapungur!"


7 gallar í fari mínu sem ég á erfitt með að forðast:

1. Mannaskítsglott
2. Leti
3. Sóðakjaftur
4. Hálfkæringur
5. Að bora í nefið
6. Að dæma fólk út frá smáatriðum
7. Að borða með puttunum

7 konur sem mér hafa fundist fallegar (fyrir utan maka):

1. Kate Winslet
2. Toni Braxton
3. Tori Amos
4. Debbie Harry
5. Carmen Electra
6. Martina Hingis
7. Janet Leigh

7 hljómsveitir/listamenn sem ég hlusta á og einkenna mig sem manneskju:

1. The Beatles
2. The Jimi Hendrix Experience
3. The Stone Roses
4. The Smiths
5. Joy Division
6. The Velvet Underground
7. David Bowie

7 hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:

1. Heimsækja Baskaland
2. Læra spænsku
3. Skeina barnabarni
4. Búa í útlöndum
5. Gera útvarpsþátt
6. Læra á trommur
7. Halda partí