28.9.07

Kvöld sem getur ekki klikkað

Ég eyði alltaf kvöldinu fyrir framan sjónvarpið. Það er orðið svo mikið framboð af meiriháttar góðu efni að ég eyði öllum frístundum í Lazy-Boyinum til að missa ekki af neinu. Skrepp reyndar út í sjoppu í auglýsingum, nema það séu nýjar og flottar auglýsingar auðvitað. En svona verður prógrammið:

Skjáreinn 18.15 Dr. Phil – Nú er kallinn að gera sig. Hættur í hipparuglinu og farinn að senda eldgömul (næstum fertug!) hrukkudýr í nokkurra vikna leysigeislameðferðir og trítment. Vel giftur, kallinn.

Stöð 2 18.30 Fréttir – Alltaf eitthvað að gerast. Klikkar ekki. Gott að hafa þessi gríðarlega traustvekjandi andlit á skjánum.

Stöð 2 19.50 Friends – Friendsararnir klikka ekki á þessu. Joey alltaf jafn heimskur og svona. Það má horfa á þetta endalaust.

RÚV 20.10 Útsvar – Spurningakeppni landshluta. Það má hlæja að því. Verst að það eru engir hagyrðingar til að toppa dæmið. Fimm mínútur passlegt.

Stöð 2 20.15 Tekinn 2 – Besta stöffið í íslensku sjónvarpi, skuldlaust. Tær snilld að láta lögguna taka fólk og segja að það hafi valdið slysi. Alveg óborganlegt þegar það fattar að það var bara lygi! Böstiiid!

Omega – Dagskrá allan sólarhringinn. Say no more.

Stöð 2 Bíó 22.00 The Big Hit – Sennilega besta mynd allra tíma. Nenni samt ekki að horfa á hana alla.

RÚV 22.35 Plunkett & Macleane – Gaurarnir úr Trainspotting gera allt vitlaust í gömlum búningum.

Sýn 23.00 World Supercross GP 2006-2007 – Þeir hljóta að vera vangefið sterkir í hnjánum þessir gaurar.

Stöð 2 23.05 The Man – Samuel L. Jackson er auðvitað svalastur. Líka pabbinn úr American Pie, geðveikt leiðinlegur náungi. Getur ekki klikkað.

Sirkus 00.35 Tónlistarmyndbönd frá Popp TV – Eru ekki allir ferskir??!

27.9.07

Heilinn

Ég er með Tubular Bells á heilanum. Gæti verið verra.

26.9.07

Fjölmenning

Það er hrikalegur skortur á pagóðum hérlendis.

25.9.07

Varúð! Því eldfimt er Nýlónið

Fyrir nokkrum árum var ég staddur í Nýlistasafninu, sem þá var við Vatnsstíg, á opnun sýningar eftir framúrstefnulegan listamann erlendan sem tengst hefur íslensku þjóðinni tryggðaböndum. Til að kynna sýninguna og listamanninn steig á stokk kunnur einstaklingur úr fjármálaheiminum fyrir hönd styrktaraðila. Ávarp hans, sem flutt var á ensku, hófst á þessum orðum: "Extinguished guests..."
Skemmst er frá því að segja að sýningin var draugfúl.

22.9.07

Niðurlæging Austurlandahraðlestarinnar

21.50 -
"Það er lokað."
"Er ekki lokað klukkan tíu? "
"Klukkan er orðin tíu."

21.9.07

Joi splæsir

Pabbi José Mourinho heitir Félix. Þannig að hann heitir Joi Fél. Pælið í því.

19.9.07

Hugvekja um samskipti frá A til B

Jæja, þessar teppur mynda sig ekki sjálfar. Allir út í umferðina!

"Ain't nobody slowing down no way, everybody's stepping on their accelerator. Don't matter where you are, everybody's gonna need a ventilator, some kind of ventilator. What you gonna do about it, what you gonna do? Gonna fight it?"

Hvað sem þið gerið, hafið viftuna í gangi svo þið sjáið út.

7.9.07

Mannvinurinn og eiturlyfjafíkillinn

Fyrir nokkrum áratugum hittust tveir efnilegir ungir menn, þeir Stephen Fry og Hugh Laurie, í Cambridge-háskóla á Englandi og stigu þar sín fyrstu spor á leiklistarbrautinni. Síðan þá hafa þeir unnið mörg stórvirkin en hæstum hæðum hafa þeir náð í samvinnu. Þættirnir um Blackadder hefðu vart verið svipur hjá sjón án þeirra, hvað þá Jeeves & Wooster. Færri þekkja ef til vill gamanþættina A Bit of Fry and Laurie en þeir eru vel þess virði að komast í með hvaða tiltækum ráðum sem er. Hjá Fry og Laurie mætast tveir bestu eiginleikar Englendinga: fágun sem byggir á aldagömlum merg í bland við nístandi kaldhæðið grín, gjarnan með töluvert súrrealískum blæ.

Þessa dagana þjóna þeir félagarnir okkur á sjónvarpsskjánum sem fulltrúar sumars og vetrar. Fyrsta röðin af þáttunum Kingdom, þar sem Fry leikur samnefndan hjartahlýjan lögmann í enskum smábæ, hefur runnið sitt skeið á enda og við tekur dóphausinn mannasiðalausi dr. House, sem Laurie ljáir líf í samnefndum amerískum þáttum. Sem fyrr eru blóðbræðurnir eins og tvær hliðar á sama peningi. Gæðablóðið Peter Kingdom getur ráðist á mann með kjaftshöggi og bitið hann í fótinn meðan Gregory House leggur starf sitt og orðspor að veði til að bjarga lífi sjúklinga sinna. Samt er Kingdom góði kallinn og House vondi kallinn. Fry hefur fyllt ágætlega upp í sjónvarpstóm sumarsins með mannlegri smábæjarnostalgíu en það er gott að vita að Laurie er mættur með sinn safaríka durt til að halda okkur við kassann í vetur. Smjatt.

Því er við að bæta að hér á síðunni var fyrir tveimur vikum fjallað um málarana Atla og Gísla, sem gert hafa garðinn frægan í auglýsingum. Þar voru þeir sagðir danskir og einkalífi þeirra lýst í þaula en í raun eru þeir íslenskir og einkahagir þeirra dálkahöfundi að mestu ókunnir. Heimildir blaðsins reyndust því ekki áreiðanlegar að þessu sinni.