26.7.06

Gegn siðferðislegri hnignun

Á ferðum vorum um landið síðustu vikur höfum vér sannfærst um að þjóðfélag vort er að þróast með uggvænlega hraða í átt til lausungar og siðleysis. Í Mývatnssveit urðum vér vitni að því að kýr viðhafði ósæmilega kynferðislega tilburði við aðra kú og það þótt kona vor og kornung dóttir væru til vitnis. Á sunnanverðu Snæfellsnesi í gær sáum vér að í hópi hrossa á túni stunduðu tvö dýranna hneykslanleg mök og verður því best trúað að það hafi verið tvær merar, þó að vér höfum ekki séð það sem gleggst. Þykja oss þetta válegir fyrirboðar. Ljóst er að spyrna þarf við fótum af festu og hefja gömul gildi til vegs á ný ef vér rétthugsandi fólk viljum ekki að lífshættir vorir líði undir lok, en búfénaður vor er gjörvallur lesbískur orðinn.

19.7.06

Þorramatur

Knattspyrnukappinn Zinedine Zidane hefur sem kunnugt er leikið undanfarin ár með Real Madrid og franska landsliðinu og getið sér gott orð fyrir. Hann hefur nú lagt skóna á hilluna en hyggst reyna fyrir sér í matvælabransanum. Þegar Zidane lék hérlendis fyrir nokkrum árum smakkaði hann íslenskan þorramat og þótti mikið til koma. Því hefur hann ákveðið að markaðssetja þorrabakka undir vöruheitinu ZZ bringukollar.

12.7.06

Omega-tíundin

Hérna er fyrirtaks dæmi um aðferðir við að benda fólki á leiðir til að bjarga sál sinni og kippa efnahagnum í lag um leið, sem óprúttnir trúleysingjar myndu væntanlega kalla að nýta sér heilaþvott trúarbragða til að hafa peninga af fátæku fólki. Kristilega sjónvarpsstöðin Omega ætlar, eins og ég skil það, að ábyrgjast það að hver sem gefur sjónvarpspredikurum tíu prósent af tekjum sínum komist í álnir með hjálp yfirnáttúrulegra afla (eða að minnsta kosti biðja fyrir þeim sem borga tíundina, það er fyrir mestu).

Í fréttabréfi Omega í júní ritar Eiríkur Sigurbjörnsson meðal annars:

"Ég trúi því, að við höfum fundið nýja leið til þess að fá meira fjármagn inn í starfið hér heima, sem ég er mjög spenntur fyrir og er viss um að eigi eftir að hjálpa okkur stórlega. Á þessu augnabliki get ég ekki sagt hvað það er, en það kemur í ljós innan skamms."

Þetta er vissulega forvitnilegt. Síðan kemur "áhrifaríkur vitnisburður frá trúföstum áhorfanda í Englandi" sem ég hef leyft mér að sníða aðeins til:

"Vegna sjúkleika, hef ég ekki getað sótt kirkju í langan tíma. Þetta orsakaði það, að ég varð kærulaus varðandi tíund. Drottinn áminnti mig fyrir þetta og sýndi mér fram á að ég yrði að líta á kristilegt sjónvarp, sem mína kirkju og blessa það með tíund og fórnargjöfum."

Getur verið að Drottinn hafi áminnt þessa ágætu konu einmitt gegnum kristilegt sjónvarp? Eða jafnvel netsíðu kristilegs sjónvarps? Það ætti að virka. Áfram heldur "vitnisburðurinn":

"Þegar ég spurði manninn minn, hvort það væri í lagi hans vegna að við byrjuðum að skila tíund til kristilegs sjónvarps, þá var hann samþykkur því og honum fannst að við ættum að leggja fjármagnið til Gospel Channel."

Svo klikkar það auðvitað ekki að allt lagast um leið og hjónin aðþrengdu sjá að sér og gefa kristilegri sjónvarpsstöð tíu prósent af tekjum sínum; maðurinn nær bílprófinu og fær nýja vinnu, þau fá hagstæð lán og svo framvegis. Áfram:

"Okkur hafði aldrei órað fyrir því, hvað óhlýðni varðandi tíund getur hindrað mikla blessun. Við höfðum ekki áttað okkur á því, hversu heimskulegt það er að halda frá Drottni, því sem Hann á.
Við höfum fengið að reyna það, að Guð er trúfastur Guð (Malakí 3:3). En við þurfum líka að vera trúföst við Guð. Ef þú ert þegar í fjárhagslegum vanda, þá hefurðu engu að tapa. Ég og maðurinn minn getum sagt þér, að þú munt aldrei sjá eftir því.
Með kærleikskveðju í Jesú Kristi,
Systir Audrey í Englandi"

Ætlar þú að draga orð Systur Audrey í Englandi í efa? Ætlar þú að halda því frá Drottni, sem Hann á? Eða ætlar þú að borga kristilegu sjónvarpsstöðinni Omega einn tíunda af tekjum þínum? Hugsaðu þig vel um, ef þú ert þegar í fjárhagslegum vanda, þá hefurðu engu að tapa og þetta skilur sennilega á milli eilífrar himnasælu og þess að brenna í helvíti.

11.7.06

Ótrúlegt ævintýri

Í gær upplifði ég nokkuð sem fæstir eru svo heppnir að lenda í, þó ekki sé nema einu sinni á ævinni.

Ég var að keyra og kom að gatnamótum með biðskyldu, þar sem ég ætlaði að beygja til vinstri og gaf það til kynna með stefnuljósi. Á vinstri hönd nálgaðist bíll, en bílstjórinn hægði á sér og gaf mér bendingu um að ég skyldi óhræddur beygja. Ég leit til hægri, þar sem óþarfi er að taka fram að enginn bíll var í augsýn, og tók svo beygjuna, þakklátur hinum vingjarnlega félaga mínum í umferðinni. Hver var svo þessi miskunnsami gatnamótasamverji, kynni einhver að spyrja? Jú, enginn annar en HEMMI GUNN!!!

Hugsið ykkur bara.

10.7.06

Giles Gilbert Scott

Vissuð þið að maðurinn sem teiknaði Battersea-orkuverið (sjá Animals) hannaði líka rauðu símaklefana og Dómkirkjuna í Liverpool? Vel af sér vikið.

3.7.06

Sólóferillinn heldur áfram

Jamm.















Sælt veri fólkið. Nú fer að líða að því að önnur sólóplata mín komi út og mun meðfylgjandi mynd, sem tekin var á dögunum við Vogafjós Cowshed Café í Mývatnssveit, prýða umslagið. Lesendum er velkomið að stinga upp á nöfnum á plötuna, en þema hennar er sveitasöngvar.