30.6.07

Lögregla ræðir um daginn og veginn við meinta mótmælendur

Hér eru góðar fréttir af textavarpinu:

Meintir mótmælendur á Seyðisfirði
Fjórir menn sem lögreglan telur að hyggi á mótmæli gegn Kárahnjúkavirkjun og álverinu við Reyðarfjörð í sumar komu með Norrænu til Seyðisfjarðar í gær. Mennirnir eru allir hollenskir og að sögn Óskars Bjartmarz, yfirlögregluþjóns sýslumannsembættisins á Seyðisfirði, var einn þeirra viðriðinn mótmælaaðgerðir á Austurlandi í fyrra en var þó ekki meðal þeirra sem hlaut (svo!) dóm fyrir slíkt. Óskar segir að lögreglan hafi rætt við fjórmenningana við komuna til landsins en ekki hafi verið um yfirheyrslu að ræða.

Það er nokkuð ljóst að ég sef betur í nótt fyrst lögreglan einbeitir sér að þeim verkefnum þar sem hennar er mest þörf. Annars mætti augljóslega taka harðar á forhertum glæpamönnum af þessari sort. Hvað viljum við? Auknar heimildir til að halda grunuðum hryðjuverkamönnum í gæsluvarðhaldi án dómsúrskurðar! Hvenær viljum við það? Ekki seinna en strax! Áfram Óskar, láttu þá hafa það!

25.6.07

Straight to hell

Þegar ég var að klæða mig í leppana eftir sund í kvöld heyrði ég Þjóðverja segja í símann sinn eitthvað á þessa leið: "Ja, wir sind am Swimming-Pool zu duschen...". Ég sleppti því að spyrja hann hvað í andskotanum hann væri eiginlega að gera við málið sitt, þó að mig dauðlangaði til þess.

16.6.07

Klósettframherjinn

Ég á stundum svolítið erfitt með mig þegar ég sé áletrunina "LAVATORY FORWARD" í flugvélum í innanlandsflugi, þar sem mér finnst að það eigi að vera staða í fótbolta.

15.6.07

Sumarfrí

Þrjár helstu konurnar í lífi mínu keyra norður saman í dag. Ég er að vinna í kvöld og flýg svo í fyrramálið. Síðan tekur við viku afslöppun á Akureyri og í Mývatnssveit. Það verður ansi gott.

10.6.07

Sunnudagshjólrúnturinn

Ég leitaði að leiðinni sem liggur á Heimsenda. Samt finnst mér heimsins ásýnd ekkert svo ill, né heimsins náttúra. Það er skemmst frá því að segja að leiðin fannst og ferðin var mjög skemmtileg.

8.6.07

Þú hefur ekki misst af neinu

Allt fram streymir endalaust á tölvuöld og enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Allt er á hverfanda hveli og breytingum háð. Svo er það og þannig er það nú. Breytingar eru það eina sem er stöðugt, ekki síst í hinum síkvika sjónvarpsheimi. Nýjar stöðvar spretta fram og deyja og hinar umturnast í takt við kröfur nýrra kynslóða.

Ein merkilegasta breytingin sem hefur átt sér stað síðari ár í ljósvakamiðlum er Plúsinn. Stöð 2 reið á vaðið með Stöð 2 Plús, sem sýndi nákvæmlega sama efni og móðurstöðin nema bara klukkutíma síðar. Tímaferðalög hafa löngum verið mannskepnunni hugleikin og þarna varð sá draumur að veruleika að geta farið heilan klukkutíma aftur í tímann og horft á dagskrána eins og maður væri staddur í Síerra Leóne og væri með áskrift að Stöð 2. Með 22 plúsrásum í viðbót væri búið að dekka öll tímabelti jarðarinnar og allir væru sáttir. Plúsinn svínvirkar og þú hefur ekki misst af neinu þó þú sért upptekin(n) á auglýstum tíma dagskrárliðsins. VHS-upptökutækið er orðið óþarft.

Plúsinn var þvílíkt snilldarbragð að hver ljósvakamiðillinn á eftir öðrum hefur beitt sama bragðinu og bætt við sig heilli rás án þess að þurfa að framleiða meira efni. Nú er hins vegar kominn tími til að aðrar tegundir fjölmiðla sláist í hópinn. Ég hef því stungið upp á því við yfirmenn 365 að plúshugmyndin verði yfirfærð á prentmiðilinn sem þú ert nú með í höndunum. Þannig yrði til nýr og glæsilegur hliðarmiðill, Fréttablaðið Plús, sem væri einfaldlega sama blað borið í sömu hús sólarhring síðar fyrir þá sem náðu ekki eða nenntu ekki að lesa blaðið í fyrsta umgangi. Undirtektirnar hafa til þessa verið dræmar en ég er þess fullviss að hugmyndin verði að veruleika. Þetta á ekki að geta klikkað.

7.6.07

Pers

Tveggja km bringa á 49:36. Jájájájájá. Fimmtíu mínútna múrinn rofinn. Nú verður sko tekið á því í sumar.

3.6.07

Spjúff

Ég hef aldrei vitað aðra eins sjóferð, segi ég nú bara. Það var stíft rok í Grindavík og meira en að segja það að hjóla þar, en hafðist á endanum. Reyndar náði ég að villast (held að heilinn hafi verið orðinn súrefnislaus) þegar hitaveitan eða hvað þetta er við Bláa lónið var í augsýn og fékk ekki opinberan tíma, en komst þó fyrir eigin vélarafli á leiðarenda á einhverjum örfáum mínútum yfir tveim tímum. Þá voru lærvöðvarnir farnir að kveinka sér töluvert. Í það heila gott stuð. Frekar dasaður núna. Og útitekinn. Spurning að fá sér vinnu í skógerð.

Den galne Herr Grindevigen

Í fyrramálið ætla ég að vakna klukkan hálfátta (ef Vala verður ekki búin að vekja mig), fá mér morgunmat og keyra svo til Grindavíkur. Klukkan tíu hefst þar þríþrautarkeppni þar sem syntir verða 800 metrar, hjólaðir 23 kílómetrar og svo hlaupnir sex kílómetrar, endað við Bláa lónið. Þetta er hálf ólympísk vegalengd og rúmlega það.

Síðustu mánuðina hef ég eiginlega ekkert hlaupið; tvisvar tekið Seltjarnarneshringinn upp á fimm kílómetra (með Árna) og skakklappast í innanhússfótbolta einu sinni í viku. Jú, og farið þrisvar í ræktina síðan í vor.

Hjólið fékk loft í dekkin fyrir svona þremur dögum og ég hef setið á því í sirka hálftíma samtals síðan þá. Jæja, ég keypti mér þó almennilegan hjálm í staðinn fyrir línuskautahjálminn sem ég notaði í fyrra.

Ég hef verið sæmilega duglegur að synda; einu sinni í viku síðustu tvo mánuði eða svo, oftast tvo kílómetra. Hins vegar kann ég ekki skriðsund, sem ég hyggst þó reyna að synda sem mestan hluta af þessum 800 metrum þar sem það er mun skilvirkari aðferð en bringusundið og ætti að skila fótleggjavöðvunum frískari fyrir hjólreiðarnar.

Þrátt fyrir þessa vankanta á undirbúningnum er ég bjartsýnn og hlakka til að taka á því, væntanlega í roki og rigningu. Allt undir tveimur klukkutímum tel ég góðan árangur. Við sjáum hvernig fer.