27.7.07

Óraníureglan hin nýja

Hörundslitur fólks hefur haft mikil áhrif á mannkynssöguna. Synir Nóa, þeir Sem, Kam og Jafet, ollu töluverðum klofningi fyrir nokkrum þúsundum ára þegar þeir gerðust ættfeður semíta (þar með gyðinga, araba og annarra Asíubúa), blökkumanna og óbreyttra hvítra manna, í þeirri röð, sem sagt allra jarðarbúa samanlagt. Einn daginn drakk Nói sig fullan og leið út af í tjaldi sínu sökum ofneyslu, eins og gengur og gerist. Hinn hörundsdökki Kam var svo óheppinn að „sjá nekt föður síns" og þegar Nói vaknaði, „varð hann þess áskynja, hvað sonur hans hinn yngri hafði gjört honum. Þá mælti hann: Bölvaður sé Kanaan, auvirðilegur þræll sé hann bræðra sinna". Til útskýringar ber að geta þess að Kanaan var sonur Kams, en í þá daga fengu synirnir gjarnan á baukinn ef pabbarnir gerðu eitthvað af sér. Þessi ágæta saga var síðan gjarnan notuð til að réttlæta ánauð þeldökkra manna, enda var Nói guðhræddur og vís, þótt hann drykki, og mikil virðing borin fyrir hans óskum. Hann bar sumsé prís.

Ekki er gott að segja hvernig stóð á því að synir Nóa gátu af sér svo ólíka kynþætti. Vísindamenn telja hugsanlegt að Kam hafi gillzað yfir sig í ljósabekkjum og húðliturinn færst yfir á seinni kynslóðir með einhvers konar stökkbreytingu, en það er enn ósannað. Nú vill svo til að við sjónvarpsáhorfendur erum í einstakri aðstöðu til að fylgjast með hliðstæðri þróun nú á dögum. Í fréttatímum birtast okkur menn, fréttaþulir, sem hafa farið offari í spray-tan meðferðum með þeim afleiðingum að þeir eru appelsínugulir í framan og gætu spilað treyjulausir fyrir hollenska landsliðið í fótbolta. Þeir eru fáránlega appelsínugulir. Hvað er eiginlega málið með það?

24.7.07

Orðsifjar

Gasnaglabyssur eru eilítið skyldar Scunthorpe.

15.7.07

Messi – ¡gooooooooooooooooooooolllllllllll!

Fótboltaunnendur hafa orð á sér fyrir að fara gjarnan yfir strikið í átrúnaði sínum á íþróttinni og goðum hennar. Boltinn breytir settlegum borgurum í æstar bullur og gerir ábyrga fjölskyldufeður að sinnulausum slettirekum sem engu nenna nema að hanga og slafra bjór yfir sjónvarpsútsendingum með félögunum. Nokkrir sökudólgar hafa verið fremstir í flokki; enska knattspyrnan og Meistaradeild Evrópu hafa grafið undan þjóðfélaginu á veturna en annað hvert sumar hafa Evrópukeppni landsliða eða Heimsmeistarakeppnin lagt frítíma fjölskyldnanna í rúst. En nú er nýr skaðvaldur kominn til sögunnar – Copa America.

Ameríkubikarinn er Suður-Ameríkukeppni landsliða í fótbolta sem haldin er með tveggja til þriggja ára millibili, nú í Venesúela. Undanfarnar vikur hafa þeir getað fylgst með þessu fyrirbæri sem eru viljugir að sitja við imbann langt fram eftir kvöldi eða jafnvel fram á rauða nótt. Þeir hafa þó væntanlega fæstir séð eftir því, frekar en áhorfendurnir sem skemmt hafa sér frábærlega á pöllunum. Boðið hefur verið upp á markasúpu í leik eftir leik og fótboltinn hjá bestu liðunum hefur flokkast undir fagra list frekar en íþrótt. Hegðun leikmanna hefur líka að langmestu leyti verið til fyrirmyndar og drengskapur í hávegum hafður.

Í fyrstu leikjunum fóru úrslitin sjaldnast eftir bókinni, heldur velgdu minni spámenn eins og gestgjafarnir sterkari liðum undir uggum. Í undanúrslitum voru þó þekktustu liðin eftir: baráttuhundarnir frá Mexíkó, hinir ólseigu Úrúgvæar og risaveldin Brasilía og Argentína. Brassarnir voru lúsheppnir að komast í úrslitin eftir sigur á Úrúgvæum í vítakeppni en Argentínumenn, með undrabarnið Messi og snillinginn Riquelme í ótrúlegu formi, sýndu leikmönnum Mexíkó í tvo heimana. Þá höfum við úrslitaleikinn á sunnudaginn: Argentína gegn Brasilíu. Þá nær skemmtilegasta fótboltamót síðustu 25 ára hámarki og eins gott að vaka fram eftir. Á mánudaginn er svo hægt að snúa aftur til eðlilegra lifnaðarhátta.

7.7.07

Við feðginin brugðum okkur í Laugardalinn um fimmleytið og ætluðum að heilsa upp á fuglana í garðinum. Við innganginn sáum við brúðhjón sem var verið að taka myndir af, síðan önnur brúðhjón, og svo þau þriðju, nánast á sama blettinum. Gaman að þessu.

3.7.07

Náð og miskunn

Nú er sótt hart að vini okkar George W. Bush, forseta Bandaríkja Norður-Ameríku og leiðtoga hins siðmenntaða heims, fyrir að hafa forðað vini sínum Scooter Libby frá því að lenda í fangelsi. Þetta er hins vegar alls ekki í fyrsta sinn sem forsetinn röggsami sýnir miskunnsemi. Áður en hann var valinn til núverandi embættis gat hann sér gott orð á árunum 1995-2000 sem ríkisstjóri í hinu víðlenda og fjölmenna Texas, þar sem hugsjónir einstaklingsfrelsis eru í hávegum hafðar. Meðal afreka hans á þeim tíma var að forða Henry Lee Lucas, sem getið hafði sér gott orð sem fyrirmynd aðalsöguhetju í bíómynd, frá aftöku. Þetta var einsdæmi, en 152 aðrir fangar á dauðadeild fengu í ríkisstjóratíð Bush þau málagjöld að vera svæfðir svefninum langa með sprautugjöf. Sjálfsagt var það maklegt og réttvíst í öllum tilfellum, en umfang ríkisstjórastarfsins sést best á því að á þessum fimm árum skrifaði Bush undir aftökuheimild á níu daga fresti. Hafa ber í huga að óvildarmenn Henry Lee Lucas, sem vildu hann feigan, voru allmargir og létu ófriðlega. Þegar George W. Bush er sakaður um að vera sálsjúk mannleysa skulum við því minnast þess hvílíka miskunnsemi hann hefur sýnt.