26.10.07

Rigning á stöku stað, fremur hvasst

Suðsuðvestur af Hvarfi er níuhundruðogátta­tíu millibara lægð sem nálgast landið... þetta er nóg. Hver Íslendingur sem kominn er á fullorðinsaldur heyrir rödd veður­fréttanna við þessi orð; rödd sem er jafn seiðandi og arineldur á rigningarkvöldi, jafn þægilega slævandi og róandi lyf uppáskrifað af heimilis­lækni. Fregnir af veðri eru áþreifanlegasti hluti menningar þjóðarinnar, stöðugar en breyti­legar, daglegar en teygja sig afturábak yfir flæmi alda til árdaga lýðveldisins. Millibör. Gráð. Vindstig. Í þessum orðum felst saga.

Varlega skyldi því fara í að breyta veðrinu. Eitt er að úða koltvísýringi og freoni linnulaust út í lofthjúpinn, þannig að Grænlandsjökull og ísbreiður Suðurskautslandsins molni og jörðin hitni á endanum eins og afgangar í örbylgjuofni. Við það þurfa komandi kynslóðir að glíma. Annað og alvarlegra mál er að umhverfa fréttum af veðri og vindum í sjónvarpi. Það hefur áhrif núna.

Eitt versta ógæfuspor ljósvakamiðlanna var nefnilega að binda ofurtrú á stafrænar tæknibrellur og sjónhverfingar við veðurfréttir. Veðurfréttamenn standa nú hægra megin á skjánum, þannig að Austurland er ósýnilegt, horfa fjarrænum augum út í loftið og láta hægri höndina vofa með döprum árangri yfir korti sem þeir sjá ekki sjálfir. Gamla aðferðin, með alvöru kortum, var betri. Í teningnum sem bendiprikið snart var fólgið öryggi.

Þegar kemur að veðrinu sjálfu verða veðurfréttamenn þó að lifa í samtímanum. Nú er svo komið að monsún­úrhelli hefur staðið yfir í tvo mánuði í höfuðstaðnum, þannig að þurrkatíð virðist jafn fjarlæg minning og bjórlíki, og þá verða þeir að sætta sig við það litlausa hlutskipti að tilkynna þjóðinni óbreytt ástand þar til annað kemur í ljós. „Nú, á morgun tekur svo að rigna” sagði einn veðurfræðingurinn um daginn í miðri dembu. Svo hélt bara áfram að rigna.

12.10.07

Leiktjöldin og sannleikurinn

Talsetning auglýsinga er listgrein sem birtist okkur tíðum á skjánum en er sjaldnast gert hátt undir höfði. Metrósexúal tyrkneskir herramenn fjölyrða á lýtalausri íslensku um kosti tiltekinnar tegundar flösu­sjampós og miðaldra danskar reykingakonur hampa gæðum tannkrems á hinu ástkæra ylhýra, en samspil hljóðs og myndar er í svipuðum gæðaflokki og í austurlenskum slagsmálamyndum. Telja verður þó líklegt að vissum dalbotni hafi verið náð nýlega þegar útlenskur auglýsingaleikari lét goshverinn Strokk í Haukadal sjóða fyrir sig kartöflur á tíu mínútum og lýsti fjálglega. Svo var það talsett á íslensku, sem er svolítið eins og að markaðssetja útlent drykkjarvatn hérlendis. Æ, afsakið.

Birtingarmyndir firringarinnar eru reyndar fleiri á öldum ljósvakans en margan grunar. Til að mynda er meirihluti afþreyingarefnis lyga­sögur sem ganga ekki upp nema viðtakendurnir í sófanum heima fallist á að setja gagnrýna hugsun til hliðar stundar­korn og sætta sig við uppskáldaðan hliðarheim. Stundum fáum við hins vegar tæran sannleika rammaðan af leiktjöldum hins tilbúna. Dæmi þess var í gær þegar RÚV mætti með myndavélar og hljóðnema til að færa borgarbúum og landsmönnum öllum blaðamannafund þar sem nýr borgarstjórnar­meirihluti kynnti sig. Mesti þrótturinn og spennan voru fyrir bí þegar tuttugu mínútur voru liðnar af fundinum, kannski út af einhverri leiðindaflensu sem virðist vera að ganga, en þá komu tveir organdi rónar eins og frelsandi englar sann­leikans. Ekki skildist alveg hvað þeir höfðu til málanna að leggja, þó að sennilegast hafi þeir verið að lýsa óánægju með að gamli meirihlutinn hefði ekki fengið næði til að vinna áfram að sínum prinsippmálum. Á meðan hélt barnatíminn áfram á Stöð 2 samkvæmt áður auglýstri dagskrá.