9.11.07

Hafa skal það sem hendi er næst

Hver kannast ekki við að vinna langan vinnudag, fara í búð, koma heim, elda kvöldmat, borða og horfa svo á sjónvarpið fram að háttatíma? Þetta er kunnugleg lýsing á venjulegum virkum degi hjá fjölda fólks og langt frá því að vera versta rútína sem hægt er að ímynda sér. Þegar við skoðum ferlið nánar sjáum við hins vegar að hvert atriði snýst um að uppfylla grunnþörf, nema það síðasta, sjónvarpsglápið. Það er sem sagt alvanalegt að eina raunverulega ákvörðun dagsins um hvað eigi að gera við tímann sé að horfa á sjónvarpið. Þá fer allur frítíminn í það.

En hver kannast ekki líka við að hoppa á milli stöðva og finna ekkert áhugavert en velja bara það skásta og horfa á það? Það getur virst óyfirstíganleg hindrun að finna sér eitthvað annað að gera, jafnvel þó að það sé bara að taka fram bíómynd sem mann hefur langað að sjá (aftur). Stundum nennir maður ekki einu sinni að skoða sjónvarpsdagskrána, velja úr það sem mann langar virkilega að horfa á og halda sig við það. Lendingin er þá að finna eitthvað í sjónvarpinu sem maður getur sætt sig við, þótt maður hafi eiginlega engan áhuga. Valkvíði er ekki vandamálið, heldur skortur á löngun til að velja. Við berum ekki nægilega virðingu fyrir frítíma okkar til að taka ákvörðun um hvað við eigum að gera við hann.

Hrikalega erum við þreytt og slæpt og sinnulaus stundum. Ef við höfum varla orku í að lyfta fjarstýringunni, er þá furða að við nennum ekki að mynda okkur skoðanir á erfiðum málum heldur látum berast með straumnum? Þá er síðasti ræðumaður yfirleitt ræðumaður kvöldsins og meirihlutinn ræður öllu. Við þurfum að hrifsa til okkar ánægjuna af því að hugsa og taka sjálfstæðar ákvarðanir, og sjónvarpið er ekki slæm byrjun. Ein leið er að taka sér Groucho Marx til fyrirmyndar, en hann mælti þessi orð: „Mér finnst sjónvarpið mjög fræðandi. Alltaf þegar einhver kveikir á því fer ég í annað herbergi og les góða bók."