27.4.07

VARÚÐ - SPILLIEFNI

Það skal tekið fram að þeir sem ætla að horfa á myndina The Sixth Sense í kvöld og hafa ekki séð hana ættu að hætta lestri þessa pistils nú þegar. Hér er nefnilega að finna stórhættulegt efni sem getur hamlað endorfínframleiðslu líkamans og spillt þeirri vellíðan sem fylgir óvæntri uppljóstrun. Jæja, þá erum við ein eftir sem vitum að náunginn sem Bruce Willis leikur í myndinni er í rauninni steindauður. Skemmtileg hvörf a tarna. Kannski er best að ég vari alfarið við frekari lestri, því ég bara verð að leysa frá skjóðunni um fleira. Hafið þið ekki séð hinar myndirnar eftir handritshöfundinn og leikstjórann M. Night Shyamalan? Nú, í Unbreakable er Samuel L. Jackson vondur kall, í Signs gera geimverur innrás á jörðina en eru yfirbugaðar með vatni og í The Village gerist sagan í nútímanum en ekki fyrr á öldum eins og virðist framan af.

Hugtakið „spoiler", sem notað er um ótímabærar og spillandi upplýsingar af þessu tagi, komst fyrst fyrir alvöru í umræðuna hérlendis fyrir fimmtán árum þegar myndin The Crying Game, með Íslands­vininum og stórleikaranum Forest Whitaker í aukahlutverki, sló í gegn. Eins og allir vita í dag er stóra uppákoman í þeirri mynd atriði þar sem hugguleg ung kona, Dil að nafni, afklæðist og í ljós kemur getnaðarlimur þar sem píku var von. Fréttirnar af liminum bárust eins og eldur í sinu og Mogginn flýtti sér að afhjúpa leyndarmálið meðan einhverjir ættu enn eftir að sjá myndina eða heyra af ósköpunum. Þá var þjóðin ung og saklaus.

Stórkostlegustu hvörf sögunnar urðu hins vegar á sjónvarpsskjánum nokkrum árum fyrr. Þið munið eftir Bobby í Dallas? Hann dó. Það hélt fólk að minnsta kosti. En Pamelu hafði bara dreymt að Bobby væri dáinn. Eins árs langan draum. Hjúkk.

26.4.07

Þreytt #8562

Þú finnur strax fyrir aukinni öryggistilfinningu. Það gera vængirnir.
F-16 bindin, fyrir þig og þína þjóð.

Gesund

Bara 1500 metrar í dag. Á 37:55. Og jamm og já.

20.4.07

Takk fyrir daginn

Svona er lífið. Afmælisdagurinn er búinn að vera stórkostlegur, einhvern veginn hef ég náð að gera fullt af skemmtilegum hlutum með frábæru fólki þó að hitt frábæra fólkið hafi sífellt truflað mig með símhringingum, SMS-um, tölvupóstum og -kommentum. Ég er þakklátur fyrir það sem ég hef, sem er fólkið í kringum mig.

18.4.07

Atburðir dagsins

Er nokkur liðtækur fiðluleikari meðal borgarfulltrúa?

Góðs viti

Þegar ég var að keyra í fótbolta í gærkvöld stoppaði ég á gangbraut til að hleypa vegfaranda yfir. Þetta var maður klæddur í leðurfrakka, með leðurhatt á höfði. Hann þakkaði kurteislega fyrir sig með því að líta til mín og taka í hattbarðið. Það var góður fyrirboði.

15.4.07

Allt í drasli

Stundum sýnir sjónvarpið okkur stjórnmálamenn í öllu skemmtilegri gír en venjulega, að mæla fyrir átaki í hreinsunarmálum, ekki síst í höfuðborginni. Í einn dag klæða þeir sig niður í skítagallann og taka til hendinni í tilteknu hverfi hverju sinni; reyta arfa, tína rusl, sópa og þar fram eftir götunum. Við þessi tækifæri er svo vonast til að hinn almenni borgari taki þátt og hjálpi til við að fegra umhverfið, sem er ekki fáheyrt. Næsta dag er svo eins og ekkert hafi gerst. Pólitíkusarnir eru horfnir aftur inn á skrifstofur sínar, ánægðir með gott átak sem bætir umhverfi þeirra og ímynd í senn. Meðaljóninn í minnihlutanum sem nennti að taka til stundarkorn þarf ekki að hafa áhyggjur af umhverfissamviskunni í bráð og hinum er nokk sama.

Í mínu hverfi, Hlíðahverfi í Reykjavík, hafa götur og garðar verið meira og minna full af drasli síðustu mánuðina. Glerbrotahrúgur eru á flestum götuhornum og runnar meira og minna kaffærðir af rusli, þannig að sá grunur læðist að manni að ekki verði tekið til fyrr en skólafólk losnar til verkamannavinnu í sumar. Metnaðarfullu áhugafólki um sorp á víðavangi má benda sérstaklega á „Litlu Öskjuhlíð", svæðið vestur af Veðurstofu Íslands, en þar duga Hagkaupspokar skammt við ruslatínslu. Það hefur sýnt sig að loftið í höfuðborginni er ekki alveg tandurhreint og því miður eru strætin og grænu svæðin svokölluðu það ekki heldur.

Vandamálið er að umhverfismál borgar og bæja eru ekki tilfallandi og passleg fyrir skyndilausnir. Þessu má kannski líkja við afsláttarþankaganginn sem nú er bent á í umdeildum sjónvarpsauglýsingum og snýst um að neytendur sætti sig við uppsprengt verð, bara ef þeir hafi fengið afslátt frá enn hærra verði. Hreinsunarátak á einum stað gerir nefnilega lítið gagn, nema fyrir stjórnmálamennina, þegar heilu hverfin búa við sama ruslið mánuðum saman vegna aðgerðaleysis.

12.4.07

Sem selur

Tveir kílómetrar á 51:04. Ég bæti mig nú ekki oft meira en það, hlutfallslega.

9.4.07

Ruglhaus

"Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagði í páskaprédikun í Dómkirkjunni í morgun, að upprisa hins krossfesta sé (svo!) yfirlýsing Guðs um helgi lífsins og eilíft gildi," segir Mogginn.

"... Boðskapur fagnaðarerindisins er köllun til iðrunar og afturhvarfs," sagði Karl.

Í fyrra sagði hann að páskarnir væru brandari. Hann er greinilega með allt á hreinu.

"Hinn andlegi hafís guðleysisins lónar fyrir landi, og ískalda og vonarsnauða þoku stafar frá honum. Gegn því stendur hinn hlýi vorþeyr upprisutrúar og vonar," sagði Karl Sigurbjörnsson.

Æi, sjálfur geturðu verið landlægur skafís.

8.4.07

Málsháttur

Þetta er auðvitað besti málshátturinn. Takk, Nói-Síríus!

6.4.07

Árviss óritskoðaður viðbjóður í fréttum

Jæja, enn einn ganginn eru í fréttatímum í sjónvarpi myndir frá Filippseyjum af því þegar menn hýða sjálfa sig til blóðs til að þóknast Jesú Kristi. Rosa fréttnæmt. Stöð 2 sér ekkert athugavert við að sýna þennan óhroða í fréttatíma klukkan hálfsjö án þess að nein viðvörun komi á undan. Finnst mönnum allt í lagi að lítil börn horfi í sjónvarpinu upp á geðbilað fólk alblóðugt eftir húðstrýkingar og aðrar limlestingar?

Viðbót hálftíma seinna: RÚV gerir nákvæmlega það sama.

5.4.07

Frískur

Dreif mig loksins í sund og tók tvo kílómetra á 53:30. Ég er bara þrælánægður með mig.

4.4.07

Áleitin spurning

Hvað hét eiginlega landið í Tinnabókunum sem Alkasar hershöfðingi var frá? Þetta er alveg að gera mig geðveikan.