29.11.07

Hvað kemur á eftir veðurfréttunum?

Fyrir tæpum tveimur áratugum byrjaði RÚV að sýna þætti sem vinur minn hafði heyrt að væru fyndnir. Hann tók upp fyrsta þáttinn, og svo næsta, og svo næsta. Innan tíðar var hann kominn með glæsilegan stafla af VHS-spólum, enda missti hann nær aldrei af þætti. Það varð síðan helgisiður hjá okkur félögunum að horfa á þessa þætti og gat það tekið bestan part úr degi því þeir voru hlaðnir óteljandi mörgum skemmtilegum smáátriðum sem þurfti gjarnan að spóla aftur til að skoða betur.

Í upphafi var Bart, og orðið var hjá Bart, og orðið var Bart. Simpson. Bart Simpson. Gulur strákur í fjórða bekk með fjóra putta á hvorri hendi, haldinn óseðjandi skemmdarfýsn sem hann sagði sjálfur að hefði alltaf inntak félagslegrar gagnrýni. Snemma færðist hins vegar fókusinn yfir á fjölskylduföðurinn Hómer, sem snerti hjörtu heimsbyggðarinnar með heimsku sinni, leti og takmarkalausu ofáti. Svo rammt kvað að vinsældum Hómers að íslenska þjóðin heiðraði hann með samnefndri sjoppu á Hverfisgötu sem fór leiftursnöggt á hausinn. Glæstir tímar.

Í þáttunum um Simpson-fjölskylduna er fjöldi lúmskra tilvísana sem fæstir skilja sem ekki eru komnir á miðjan aldur eða eru vel grúskaðir í sögu Bandaríkjanna. Persónugalleríið er afar víðtækt og mikil fræðiverk hafa verið rituð um vægi þáttanna sem ádeilu á flatneskju og bresti hinnar bandarísku þjóðarsálar. Samt smellvirka þeir sem teiknimyndir fyrir börn. Tæplega tveggja ára gömul dóttir mín er nú þegar orðin háð þáttunum, sem eru henni svo mikilvægir að þegar hún sér að veðurfréttirnar á Stöð 2 eru að verða búnar klappar hún saman lófunum í æsingi og kallar: „SIPPOOOOSS!" Ég sé fram á að endurnýja gömlu kynnin við Hómer, Marge, Bart, Lísu og Möggu með því að kaupa fullkomið safn þáttanna á DVD. Best væri auðvitað að fá spólusafnið góða lánað, en gamla VHS-tækið mitt er því miður löngu komið á haugana.