Þú hefur ekki misst af neinu
Allt fram streymir endalaust á tölvuöld og enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Allt er á hverfanda hveli og breytingum háð. Svo er það og þannig er það nú. Breytingar eru það eina sem er stöðugt, ekki síst í hinum síkvika sjónvarpsheimi. Nýjar stöðvar spretta fram og deyja og hinar umturnast í takt við kröfur nýrra kynslóða.Ein merkilegasta breytingin sem hefur átt sér stað síðari ár í ljósvakamiðlum er Plúsinn. Stöð 2 reið á vaðið með Stöð 2 Plús, sem sýndi nákvæmlega sama efni og móðurstöðin nema bara klukkutíma síðar. Tímaferðalög hafa löngum verið mannskepnunni hugleikin og þarna varð sá draumur að veruleika að geta farið heilan klukkutíma aftur í tímann og horft á dagskrána eins og maður væri staddur í Síerra Leóne og væri með áskrift að Stöð 2. Með 22 plúsrásum í viðbót væri búið að dekka öll tímabelti jarðarinnar og allir væru sáttir. Plúsinn svínvirkar og þú hefur ekki misst af neinu þó þú sért upptekin(n) á auglýstum tíma dagskrárliðsins. VHS-upptökutækið er orðið óþarft.
Plúsinn var þvílíkt snilldarbragð að hver ljósvakamiðillinn á eftir öðrum hefur beitt sama bragðinu og bætt við sig heilli rás án þess að þurfa að framleiða meira efni. Nú er hins vegar kominn tími til að aðrar tegundir fjölmiðla sláist í hópinn. Ég hef því stungið upp á því við yfirmenn 365 að plúshugmyndin verði yfirfærð á prentmiðilinn sem þú ert nú með í höndunum. Þannig yrði til nýr og glæsilegur hliðarmiðill, Fréttablaðið Plús, sem væri einfaldlega sama blað borið í sömu hús sólarhring síðar fyrir þá sem náðu ekki eða nenntu ekki að lesa blaðið í fyrsta umgangi. Undirtektirnar hafa til þessa verið dræmar en ég er þess fullviss að hugmyndin verði að veruleika. Þetta á ekki að geta klikkað.
<< Heim