3.6.07

Den galne Herr Grindevigen

Í fyrramálið ætla ég að vakna klukkan hálfátta (ef Vala verður ekki búin að vekja mig), fá mér morgunmat og keyra svo til Grindavíkur. Klukkan tíu hefst þar þríþrautarkeppni þar sem syntir verða 800 metrar, hjólaðir 23 kílómetrar og svo hlaupnir sex kílómetrar, endað við Bláa lónið. Þetta er hálf ólympísk vegalengd og rúmlega það.

Síðustu mánuðina hef ég eiginlega ekkert hlaupið; tvisvar tekið Seltjarnarneshringinn upp á fimm kílómetra (með Árna) og skakklappast í innanhússfótbolta einu sinni í viku. Jú, og farið þrisvar í ræktina síðan í vor.

Hjólið fékk loft í dekkin fyrir svona þremur dögum og ég hef setið á því í sirka hálftíma samtals síðan þá. Jæja, ég keypti mér þó almennilegan hjálm í staðinn fyrir línuskautahjálminn sem ég notaði í fyrra.

Ég hef verið sæmilega duglegur að synda; einu sinni í viku síðustu tvo mánuði eða svo, oftast tvo kílómetra. Hins vegar kann ég ekki skriðsund, sem ég hyggst þó reyna að synda sem mestan hluta af þessum 800 metrum þar sem það er mun skilvirkari aðferð en bringusundið og ætti að skila fótleggjavöðvunum frískari fyrir hjólreiðarnar.

Þrátt fyrir þessa vankanta á undirbúningnum er ég bjartsýnn og hlakka til að taka á því, væntanlega í roki og rigningu. Allt undir tveimur klukkutímum tel ég góðan árangur. Við sjáum hvernig fer.