12.8.08

Hugleiðingar leikmanns um vindorku

Í kvöldfréttum Stöðvar tvö áðan var viðtal við efnafræðing sem vildi að kannaðir yrðu möguleikar á að virkja vindorku hér á landi. Þetta hljómar vel, ekki síst til að svala forvitni fólks eins og mín um málið. Af örstuttu Wiki-rápi sé ég nokkur atriði sem hafa þarf í huga:

Nútíma vindtúrbínur (?) eru engin smásmíði og flutningskostnaður þeirra á áfangastað er gríðarlegur.
Stofnkostnaðurinn er talsverður og mikils mannafla er krafist við uppsetningu. Viðhald er einnig dýrt.
Sjónmengun er allnokkur, enda mannvirkin allt upp í hundrað metrar á hæð.

Fleira má telja til, en kannski er umfang verkefnis af þessu tagi kostur þar sem atvinnuástand er bágt. Á vesturhluta Tjörness mætti alveg sjá fyrir sér röð af túrbínum eins og meðaltúristinn þekkir frá Eyrarsundi, án þess að útsýnið yfir Skjálfanda frá Húsavík liði fyrir. Ennishöfði á Ströndum er þó sá staður sem mér dettur helst í hug í ljósi eigin reynslu, enda er það örugg vindveita sem gæti þolað slíka útlitsbreytingu.

Því ekki vindorku? Ekki var stofnkostnaður vandamál við Kárahnjúka. Og ekki er útlit fyrir að lægi í bráð neins staðar á landinu.