3.7.07

Náð og miskunn

Nú er sótt hart að vini okkar George W. Bush, forseta Bandaríkja Norður-Ameríku og leiðtoga hins siðmenntaða heims, fyrir að hafa forðað vini sínum Scooter Libby frá því að lenda í fangelsi. Þetta er hins vegar alls ekki í fyrsta sinn sem forsetinn röggsami sýnir miskunnsemi. Áður en hann var valinn til núverandi embættis gat hann sér gott orð á árunum 1995-2000 sem ríkisstjóri í hinu víðlenda og fjölmenna Texas, þar sem hugsjónir einstaklingsfrelsis eru í hávegum hafðar. Meðal afreka hans á þeim tíma var að forða Henry Lee Lucas, sem getið hafði sér gott orð sem fyrirmynd aðalsöguhetju í bíómynd, frá aftöku. Þetta var einsdæmi, en 152 aðrir fangar á dauðadeild fengu í ríkisstjóratíð Bush þau málagjöld að vera svæfðir svefninum langa með sprautugjöf. Sjálfsagt var það maklegt og réttvíst í öllum tilfellum, en umfang ríkisstjórastarfsins sést best á því að á þessum fimm árum skrifaði Bush undir aftökuheimild á níu daga fresti. Hafa ber í huga að óvildarmenn Henry Lee Lucas, sem vildu hann feigan, voru allmargir og létu ófriðlega. Þegar George W. Bush er sakaður um að vera sálsjúk mannleysa skulum við því minnast þess hvílíka miskunnsemi hann hefur sýnt.