27.7.07

Óraníureglan hin nýja

Hörundslitur fólks hefur haft mikil áhrif á mannkynssöguna. Synir Nóa, þeir Sem, Kam og Jafet, ollu töluverðum klofningi fyrir nokkrum þúsundum ára þegar þeir gerðust ættfeður semíta (þar með gyðinga, araba og annarra Asíubúa), blökkumanna og óbreyttra hvítra manna, í þeirri röð, sem sagt allra jarðarbúa samanlagt. Einn daginn drakk Nói sig fullan og leið út af í tjaldi sínu sökum ofneyslu, eins og gengur og gerist. Hinn hörundsdökki Kam var svo óheppinn að „sjá nekt föður síns" og þegar Nói vaknaði, „varð hann þess áskynja, hvað sonur hans hinn yngri hafði gjört honum. Þá mælti hann: Bölvaður sé Kanaan, auvirðilegur þræll sé hann bræðra sinna". Til útskýringar ber að geta þess að Kanaan var sonur Kams, en í þá daga fengu synirnir gjarnan á baukinn ef pabbarnir gerðu eitthvað af sér. Þessi ágæta saga var síðan gjarnan notuð til að réttlæta ánauð þeldökkra manna, enda var Nói guðhræddur og vís, þótt hann drykki, og mikil virðing borin fyrir hans óskum. Hann bar sumsé prís.

Ekki er gott að segja hvernig stóð á því að synir Nóa gátu af sér svo ólíka kynþætti. Vísindamenn telja hugsanlegt að Kam hafi gillzað yfir sig í ljósabekkjum og húðliturinn færst yfir á seinni kynslóðir með einhvers konar stökkbreytingu, en það er enn ósannað. Nú vill svo til að við sjónvarpsáhorfendur erum í einstakri aðstöðu til að fylgjast með hliðstæðri þróun nú á dögum. Í fréttatímum birtast okkur menn, fréttaþulir, sem hafa farið offari í spray-tan meðferðum með þeim afleiðingum að þeir eru appelsínugulir í framan og gætu spilað treyjulausir fyrir hollenska landsliðið í fótbolta. Þeir eru fáránlega appelsínugulir. Hvað er eiginlega málið með það?