Messi – ¡gooooooooooooooooooooolllllllllll!
Fótboltaunnendur hafa orð á sér fyrir að fara gjarnan yfir strikið í átrúnaði sínum á íþróttinni og goðum hennar. Boltinn breytir settlegum borgurum í æstar bullur og gerir ábyrga fjölskyldufeður að sinnulausum slettirekum sem engu nenna nema að hanga og slafra bjór yfir sjónvarpsútsendingum með félögunum. Nokkrir sökudólgar hafa verið fremstir í flokki; enska knattspyrnan og Meistaradeild Evrópu hafa grafið undan þjóðfélaginu á veturna en annað hvert sumar hafa Evrópukeppni landsliða eða Heimsmeistarakeppnin lagt frítíma fjölskyldnanna í rúst. En nú er nýr skaðvaldur kominn til sögunnar – Copa America.Ameríkubikarinn er Suður-Ameríkukeppni landsliða í fótbolta sem haldin er með tveggja til þriggja ára millibili, nú í Venesúela. Undanfarnar vikur hafa þeir getað fylgst með þessu fyrirbæri sem eru viljugir að sitja við imbann langt fram eftir kvöldi eða jafnvel fram á rauða nótt. Þeir hafa þó væntanlega fæstir séð eftir því, frekar en áhorfendurnir sem skemmt hafa sér frábærlega á pöllunum. Boðið hefur verið upp á markasúpu í leik eftir leik og fótboltinn hjá bestu liðunum hefur flokkast undir fagra list frekar en íþrótt. Hegðun leikmanna hefur líka að langmestu leyti verið til fyrirmyndar og drengskapur í hávegum hafður.
Í fyrstu leikjunum fóru úrslitin sjaldnast eftir bókinni, heldur velgdu minni spámenn eins og gestgjafarnir sterkari liðum undir uggum. Í undanúrslitum voru þó þekktustu liðin eftir: baráttuhundarnir frá Mexíkó, hinir ólseigu Úrúgvæar og risaveldin Brasilía og Argentína. Brassarnir voru lúsheppnir að komast í úrslitin eftir sigur á Úrúgvæum í vítakeppni en Argentínumenn, með undrabarnið Messi og snillinginn Riquelme í ótrúlegu formi, sýndu leikmönnum Mexíkó í tvo heimana. Þá höfum við úrslitaleikinn á sunnudaginn: Argentína gegn Brasilíu. Þá nær skemmtilegasta fótboltamót síðustu 25 ára hámarki og eins gott að vaka fram eftir. Á mánudaginn er svo hægt að snúa aftur til eðlilegra lifnaðarhátta.
<< Heim