27.4.07

VARÚÐ - SPILLIEFNI

Það skal tekið fram að þeir sem ætla að horfa á myndina The Sixth Sense í kvöld og hafa ekki séð hana ættu að hætta lestri þessa pistils nú þegar. Hér er nefnilega að finna stórhættulegt efni sem getur hamlað endorfínframleiðslu líkamans og spillt þeirri vellíðan sem fylgir óvæntri uppljóstrun. Jæja, þá erum við ein eftir sem vitum að náunginn sem Bruce Willis leikur í myndinni er í rauninni steindauður. Skemmtileg hvörf a tarna. Kannski er best að ég vari alfarið við frekari lestri, því ég bara verð að leysa frá skjóðunni um fleira. Hafið þið ekki séð hinar myndirnar eftir handritshöfundinn og leikstjórann M. Night Shyamalan? Nú, í Unbreakable er Samuel L. Jackson vondur kall, í Signs gera geimverur innrás á jörðina en eru yfirbugaðar með vatni og í The Village gerist sagan í nútímanum en ekki fyrr á öldum eins og virðist framan af.

Hugtakið „spoiler", sem notað er um ótímabærar og spillandi upplýsingar af þessu tagi, komst fyrst fyrir alvöru í umræðuna hérlendis fyrir fimmtán árum þegar myndin The Crying Game, með Íslands­vininum og stórleikaranum Forest Whitaker í aukahlutverki, sló í gegn. Eins og allir vita í dag er stóra uppákoman í þeirri mynd atriði þar sem hugguleg ung kona, Dil að nafni, afklæðist og í ljós kemur getnaðarlimur þar sem píku var von. Fréttirnar af liminum bárust eins og eldur í sinu og Mogginn flýtti sér að afhjúpa leyndarmálið meðan einhverjir ættu enn eftir að sjá myndina eða heyra af ósköpunum. Þá var þjóðin ung og saklaus.

Stórkostlegustu hvörf sögunnar urðu hins vegar á sjónvarpsskjánum nokkrum árum fyrr. Þið munið eftir Bobby í Dallas? Hann dó. Það hélt fólk að minnsta kosti. En Pamelu hafði bara dreymt að Bobby væri dáinn. Eins árs langan draum. Hjúkk.