Allt í drasli
Stundum sýnir sjónvarpið okkur stjórnmálamenn í öllu skemmtilegri gír en venjulega, að mæla fyrir átaki í hreinsunarmálum, ekki síst í höfuðborginni. Í einn dag klæða þeir sig niður í skítagallann og taka til hendinni í tilteknu hverfi hverju sinni; reyta arfa, tína rusl, sópa og þar fram eftir götunum. Við þessi tækifæri er svo vonast til að hinn almenni borgari taki þátt og hjálpi til við að fegra umhverfið, sem er ekki fáheyrt. Næsta dag er svo eins og ekkert hafi gerst. Pólitíkusarnir eru horfnir aftur inn á skrifstofur sínar, ánægðir með gott átak sem bætir umhverfi þeirra og ímynd í senn. Meðaljóninn í minnihlutanum sem nennti að taka til stundarkorn þarf ekki að hafa áhyggjur af umhverfissamviskunni í bráð og hinum er nokk sama.Í mínu hverfi, Hlíðahverfi í Reykjavík, hafa götur og garðar verið meira og minna full af drasli síðustu mánuðina. Glerbrotahrúgur eru á flestum götuhornum og runnar meira og minna kaffærðir af rusli, þannig að sá grunur læðist að manni að ekki verði tekið til fyrr en skólafólk losnar til verkamannavinnu í sumar. Metnaðarfullu áhugafólki um sorp á víðavangi má benda sérstaklega á „Litlu Öskjuhlíð", svæðið vestur af Veðurstofu Íslands, en þar duga Hagkaupspokar skammt við ruslatínslu. Það hefur sýnt sig að loftið í höfuðborginni er ekki alveg tandurhreint og því miður eru strætin og grænu svæðin svokölluðu það ekki heldur.
Vandamálið er að umhverfismál borgar og bæja eru ekki tilfallandi og passleg fyrir skyndilausnir. Þessu má kannski líkja við afsláttarþankaganginn sem nú er bent á í umdeildum sjónvarpsauglýsingum og snýst um að neytendur sætti sig við uppsprengt verð, bara ef þeir hafi fengið afslátt frá enn hærra verði. Hreinsunarátak á einum stað gerir nefnilega lítið gagn, nema fyrir stjórnmálamennina, þegar heilu hverfin búa við sama ruslið mánuðum saman vegna aðgerðaleysis.
<< Heim