Mmm
25.2.07
23.2.07
Þessi!
Flati skjárinn og hvíta tjaldið eru víðir vellir, þar sem heimilisvinir leika lausum hala í samfloti við spámenn í minnstu kuflnúmerum. Allir þekkja Brad Pitt og Júlíu Róberts. Enginn þekkir Scott Spiegel, sem lék „mann úti á svölum" í Spider-Man 2. En hvað með Christopher McDonald, Miguel Ferrer, Colm Meaney, James Rebhorn, Stephen Tobolowsky og George Dzundza? Nöfnin hringja líklega fáum bjöllum nema hjá allra morknustu kvikmyndanjörðum og sjónvarpssjúklingum en þegar þeir birtast á skjánum er annað uppi á teningnum. Þeir eru nefnilega allir Þessi. Hver? Þessi. Jááá, ÞESSI!Það getur ekki hver sem er verið Þessi. Þessarnir eiga það sameiginlegt að hafa gegnum árin skilað góðu verki í aukahlutverkum og stimplað sig hægt og sígandi inn í vitund fólks án þess að stjörnublik félli á þá að neinu ráði. Hugheill Þessi myndi aldrei taka í mál (og yrði aldrei boðið) að leika James Bond eða Köngulóar-manninn, en gæti leikið vonda kallinn. Reyndar verður athyglin þá óþægilega mikil og Þessinn verður að fela sig í litlum hlutverkum í sjónvarpi um skeið til að viðhalda Þessleikanum. Ef Þessinn gætir ekki að sér á hann nefnilega á hættu að breytast í alþekktan leikara eins og William H. Macy, sem var rekinn úr Samtökum Bandarískra Þessa fyrir nokkrum árum.
Sumir vilja meina að orðið Þessi sé dregið af nafni Þesposar frá Íkaríu, sem var brautryðjandi í leiklist á sjöttu öld fyrir Krist, en það er merkileg staðreynd að engin kona er Þessi. Heimur Þessa er karllægur og safarík aukahlutverk falla konum sárasjaldan í skaut. Ekki er útilokað að vera Þessi á barnsaldri, til dæmis hefði strákurinn sem sá allt dána fólkið í The Sixth Sense sennilega getað orðið ágætis Þessi. Hann klúðraði hins vegar málunum og varð Haley Joel Osment. Það er list að vera Þessi, og Þessi er eins og list. Það er ekki einfalt mál að skilgreina hann en við þekkjum hann þegar við sjáum hann.
20.2.07
Þessi draumur lá vel við höggi maður
Í nótt dreymdi mig að ég væri að framleiða og/eða leikstýra kvikmynd eftir Fóstbræðrasögu. Hermann Hreiðarsson hafði verið valinn í hlutverk Þorgeirs Hávarssonar og Hilmir Snær Guðnason í hlutverk Þormóðs Kolbrúnarskálds Bessasonar. Næsta skref er að fá fleiri að verkefninu, ekki síst áhættufjárfesta.13.2.07
Valgerður Birna
Vala fór að ganga um allt fyrir rúmri viku og í dag fórum við í fyrsta skipti í fótbolta saman. Hún er alltaf að læra að segja ný orð og verður fallegri og skemmtilegri með hverjum degi. Bókstaflega. Alltaf kemur það á óvart, því hún var strax á sínum fyrsta degi það besta sem ég hafði nokkurn tíma upplifað.
11.2.07
Hafa skal það sem betur selur
Einu sinni var fullyrt í bjórauglýsingu að þegar sú bjórtegund væri borin á borð væri ávallt krafist virðingar. Einhverjir myndu segja að ávallt væri krafist sannleika þegar vörur eru auglýstar, en sú pæling er á hröðu undanhaldi. Auglýsingaheimurinn er orðinn hliðarheimur þar sem venjuleg gamaldags raunsæislögmál eru eins og hver annar hégómi.Stundum gleymir maður sér nefnilega og festist í fortíðinni meðan allt er morandi í framförum. Var ekki bannað að auglýsa áfengi? Nei, nei, það gera það allir, sérstaklega „léttöl". Er ekki hægt að hella bjór í glas án þess að einhver standi yfir manni og krefjist virðingar eins og hver annar mafíuforingi? Nei, það er ávallt krafist virðingar og ekkert röfl. Auglýsingar ljúga ekki.
Ég verð samt að viðurkenna að ég varð aðeins að hugsa mig um þegar ég sá auglýsingu fyrir húðkrem, sem fullyrt er feimnislaust að styrki DNA. Ég vil endilega vera víðsýnn og halda öllu opnu, en þarna varð ég að minna sjálfan mig á að ég hef enga prófgráðu í frumulíffræði og þar af leiðandi engar forsendur til að rengja þessa fullyrðingu. Getur það ekki vel verið að húðkremið smeygi sér í frumukjarnann og hlúi að kjarnsýrunum af alúð? Það er sagt í auglýsingunni, þannig að það hlýtur að vera satt.
Nú vil ég að auglýsendur færi listgrein sína á næsta stig. Sýni hvað þeir geta. Hér er áskorun: seljið okkur bjórbætt brennivín með beikonbragði í sex flösku kippum. Eins lítra flöskur. Þið getið bara sagt að það sé ótrúlega grennandi, vinni gegn hægðatruflunum, andfýlu og appelsínuhúð, auki einbeitingu og þol í dagsins önn og styrki kjarnsýrur. Það myndi sko selja. Og það myndi sko krefjast virðingar.
9.2.07
Við tækið
Frá og með deginum í dag skrifa ég stutta pistla í Fréttablaðið annan hvern föstudag um sjónvarpsefni. Þeir sem ekki fá Fréttablaðið sent heim til sín geta farið á visir.is og skoðað. Greinarnar eru efst á vinstri síðu á næstöftustu opnu. Já, Hemmi minn. Það er svo mikið svoleiðis.2.2.07
Fíflið ráðleggur
Have more than thou showest,Speak less than thou knowest,
Lend less than thou owest,
Ride more than thou goest,
Learn more than thou trowest,
Set less than thou throwest;
Leave thy drink and thy whore,
And keep in-a-door,
And thou shalt have more
Than two tens to a score.
Þetta mælti atvinnufífl. Ekki svo vitlaust samt.