23.2.07

Þessi!

Flati skjárinn og hvíta tjaldið eru víðir vellir, þar sem heimilisvinir leika lausum hala í samfloti við spámenn í minnstu kuflnúmerum. Allir þekkja Brad Pitt og Júlíu Róberts. Enginn þekkir Scott Spiegel, sem lék „mann úti á svölum" í Spider-Man 2. En hvað með Christopher McDonald, Miguel Ferrer, Colm Meaney, James Rebhorn, Stephen Tobolowsky og George Dzundza? Nöfnin hringja líklega fáum bjöllum nema hjá allra morknustu kvikmyndanjörðum og sjónvarpssjúklingum en þegar þeir birtast á skjánum er annað uppi á teningnum. Þeir eru nefnilega allir Þessi. Hver? Þessi. Jááá, ÞESSI!

Það getur ekki hver sem er verið Þessi. Þessarnir eiga það sameiginlegt að hafa gegnum árin skilað góðu verki í aukahlutverkum og stimplað sig hægt og sígandi inn í vitund fólks án þess að stjörnublik félli á þá að neinu ráði. Hugheill Þessi myndi aldrei taka í mál (og yrði aldrei boðið) að leika James Bond eða Köngulóar-manninn, en gæti leikið vonda kallinn. Reyndar verður athyglin þá óþægilega mikil og Þessinn verður að fela sig í litlum hlutverkum í sjónvarpi um skeið til að viðhalda Þessleikanum. Ef Þessinn gætir ekki að sér á hann nefnilega á hættu að breytast í alþekktan leikara eins og William H. Macy, sem var rekinn úr Samtökum Bandarískra Þessa fyrir nokkrum árum.

Sumir vilja meina að orðið Þessi sé dregið af nafni Þesposar frá Íkaríu, sem var brautryðjandi í leiklist á sjöttu öld fyrir Krist, en það er merkileg staðreynd að engin kona er Þessi. Heimur Þessa er karllægur og safarík aukahlutverk falla konum sárasjaldan í skaut. Ekki er útilokað að vera Þessi á barnsaldri, til dæmis hefði strákurinn sem sá allt dána fólkið í The Sixth Sense sennilega getað orðið ágætis Þessi. Hann klúðraði hins vegar málunum og varð Haley Joel Osment. Það er list að vera Þessi, og Þessi er eins og list. Það er ekki einfalt mál að skilgreina hann en við þekkjum hann þegar við sjáum hann.