11.2.07

Hafa skal það sem betur selur

Einu sinni var fullyrt í bjórauglýsingu að þegar sú bjórtegund væri borin á borð væri ávallt krafist virðingar. Einhverjir myndu segja að ávallt væri krafist sannleika þegar vörur eru auglýstar, en sú pæling er á hröðu undanhaldi. Auglýsingaheimurinn er orðinn hliðarheimur þar sem venjuleg gamaldags raunsæislögmál eru eins og hver annar hégómi.

Stundum gleymir maður sér nefnilega og festist í fortíðinni meðan allt er morandi í framförum. Var ekki bannað að auglýsa áfengi? Nei, nei, það gera það allir, sérstaklega „léttöl". Er ekki hægt að hella bjór í glas án þess að einhver standi yfir manni og krefjist virðingar eins og hver annar mafíuforingi? Nei, það er ávallt krafist virðingar og ekkert röfl. Auglýsingar ljúga ekki.

Ég verð samt að viðurkenna að ég varð aðeins að hugsa mig um þegar ég sá auglýsingu fyrir húðkrem, sem fullyrt er feimnislaust að styrki DNA. Ég vil endilega vera víðsýnn og halda öllu opnu, en þarna varð ég að minna sjálfan mig á að ég hef enga prófgráðu í frumulíffræði og þar af leiðandi engar forsendur til að rengja þessa fullyrðingu. Getur það ekki vel verið að húðkremið smeygi sér í frumukjarnann og hlúi að kjarnsýrunum af alúð? Það er sagt í auglýsingunni, þannig að það hlýtur að vera satt.

Nú vil ég að auglýsendur færi listgrein sína á næsta stig. Sýni hvað þeir geta. Hér er áskorun: seljið okkur bjórbætt brennivín með beikonbragði í sex flösku kippum. Eins lítra flöskur. Þið getið bara sagt að það sé ótrúlega grennandi, vinni gegn hægðatruflunum, andfýlu og appelsínuhúð, auki einbeitingu og þol í dagsins önn og styrki kjarnsýrur. Það myndi sko selja. Og það myndi sko krefjast virðingar.