12.10.07

Leiktjöldin og sannleikurinn

Talsetning auglýsinga er listgrein sem birtist okkur tíðum á skjánum en er sjaldnast gert hátt undir höfði. Metrósexúal tyrkneskir herramenn fjölyrða á lýtalausri íslensku um kosti tiltekinnar tegundar flösu­sjampós og miðaldra danskar reykingakonur hampa gæðum tannkrems á hinu ástkæra ylhýra, en samspil hljóðs og myndar er í svipuðum gæðaflokki og í austurlenskum slagsmálamyndum. Telja verður þó líklegt að vissum dalbotni hafi verið náð nýlega þegar útlenskur auglýsingaleikari lét goshverinn Strokk í Haukadal sjóða fyrir sig kartöflur á tíu mínútum og lýsti fjálglega. Svo var það talsett á íslensku, sem er svolítið eins og að markaðssetja útlent drykkjarvatn hérlendis. Æ, afsakið.

Birtingarmyndir firringarinnar eru reyndar fleiri á öldum ljósvakans en margan grunar. Til að mynda er meirihluti afþreyingarefnis lyga­sögur sem ganga ekki upp nema viðtakendurnir í sófanum heima fallist á að setja gagnrýna hugsun til hliðar stundar­korn og sætta sig við uppskáldaðan hliðarheim. Stundum fáum við hins vegar tæran sannleika rammaðan af leiktjöldum hins tilbúna. Dæmi þess var í gær þegar RÚV mætti með myndavélar og hljóðnema til að færa borgarbúum og landsmönnum öllum blaðamannafund þar sem nýr borgarstjórnar­meirihluti kynnti sig. Mesti þrótturinn og spennan voru fyrir bí þegar tuttugu mínútur voru liðnar af fundinum, kannski út af einhverri leiðindaflensu sem virðist vera að ganga, en þá komu tveir organdi rónar eins og frelsandi englar sann­leikans. Ekki skildist alveg hvað þeir höfðu til málanna að leggja, þó að sennilegast hafi þeir verið að lýsa óánægju með að gamli meirihlutinn hefði ekki fengið næði til að vinna áfram að sínum prinsippmálum. Á meðan hélt barnatíminn áfram á Stöð 2 samkvæmt áður auglýstri dagskrá.