26.10.07

Rigning á stöku stað, fremur hvasst

Suðsuðvestur af Hvarfi er níuhundruðogátta­tíu millibara lægð sem nálgast landið... þetta er nóg. Hver Íslendingur sem kominn er á fullorðinsaldur heyrir rödd veður­fréttanna við þessi orð; rödd sem er jafn seiðandi og arineldur á rigningarkvöldi, jafn þægilega slævandi og róandi lyf uppáskrifað af heimilis­lækni. Fregnir af veðri eru áþreifanlegasti hluti menningar þjóðarinnar, stöðugar en breyti­legar, daglegar en teygja sig afturábak yfir flæmi alda til árdaga lýðveldisins. Millibör. Gráð. Vindstig. Í þessum orðum felst saga.

Varlega skyldi því fara í að breyta veðrinu. Eitt er að úða koltvísýringi og freoni linnulaust út í lofthjúpinn, þannig að Grænlandsjökull og ísbreiður Suðurskautslandsins molni og jörðin hitni á endanum eins og afgangar í örbylgjuofni. Við það þurfa komandi kynslóðir að glíma. Annað og alvarlegra mál er að umhverfa fréttum af veðri og vindum í sjónvarpi. Það hefur áhrif núna.

Eitt versta ógæfuspor ljósvakamiðlanna var nefnilega að binda ofurtrú á stafrænar tæknibrellur og sjónhverfingar við veðurfréttir. Veðurfréttamenn standa nú hægra megin á skjánum, þannig að Austurland er ósýnilegt, horfa fjarrænum augum út í loftið og láta hægri höndina vofa með döprum árangri yfir korti sem þeir sjá ekki sjálfir. Gamla aðferðin, með alvöru kortum, var betri. Í teningnum sem bendiprikið snart var fólgið öryggi.

Þegar kemur að veðrinu sjálfu verða veðurfréttamenn þó að lifa í samtímanum. Nú er svo komið að monsún­úrhelli hefur staðið yfir í tvo mánuði í höfuðstaðnum, þannig að þurrkatíð virðist jafn fjarlæg minning og bjórlíki, og þá verða þeir að sætta sig við það litlausa hlutskipti að tilkynna þjóðinni óbreytt ástand þar til annað kemur í ljós. „Nú, á morgun tekur svo að rigna” sagði einn veðurfræðingurinn um daginn í miðri dembu. Svo hélt bara áfram að rigna.