Rigning á stöku stað, fremur hvasst
Suðsuðvestur af Hvarfi er níuhundruðogáttatíu millibara lægð sem nálgast landið... þetta er nóg. Hver Íslendingur sem kominn er á fullorðinsaldur heyrir rödd veðurfréttanna við þessi orð; rödd sem er jafn seiðandi og arineldur á rigningarkvöldi, jafn þægilega slævandi og róandi lyf uppáskrifað af heimilislækni. Fregnir af veðri eru áþreifanlegasti hluti menningar þjóðarinnar, stöðugar en breytilegar, daglegar en teygja sig afturábak yfir flæmi alda til árdaga lýðveldisins. Millibör. Gráð. Vindstig. Í þessum orðum felst saga.Varlega skyldi því fara í að breyta veðrinu. Eitt er að úða koltvísýringi og freoni linnulaust út í lofthjúpinn, þannig að Grænlandsjökull og ísbreiður Suðurskautslandsins molni og jörðin hitni á endanum eins og afgangar í örbylgjuofni. Við það þurfa komandi kynslóðir að glíma. Annað og alvarlegra mál er að umhverfa fréttum af veðri og vindum í sjónvarpi. Það hefur áhrif núna.
Eitt versta ógæfuspor ljósvakamiðlanna var nefnilega að binda ofurtrú á stafrænar tæknibrellur og sjónhverfingar við veðurfréttir. Veðurfréttamenn standa nú hægra megin á skjánum, þannig að Austurland er ósýnilegt, horfa fjarrænum augum út í loftið og láta hægri höndina vofa með döprum árangri yfir korti sem þeir sjá ekki sjálfir. Gamla aðferðin, með alvöru kortum, var betri. Í teningnum sem bendiprikið snart var fólgið öryggi.
Þegar kemur að veðrinu sjálfu verða veðurfréttamenn þó að lifa í samtímanum. Nú er svo komið að monsúnúrhelli hefur staðið yfir í tvo mánuði í höfuðstaðnum, þannig að þurrkatíð virðist jafn fjarlæg minning og bjórlíki, og þá verða þeir að sætta sig við það litlausa hlutskipti að tilkynna þjóðinni óbreytt ástand þar til annað kemur í ljós. „Nú, á morgun tekur svo að rigna” sagði einn veðurfræðingurinn um daginn í miðri dembu. Svo hélt bara áfram að rigna.