7.9.07

Mannvinurinn og eiturlyfjafíkillinn

Fyrir nokkrum áratugum hittust tveir efnilegir ungir menn, þeir Stephen Fry og Hugh Laurie, í Cambridge-háskóla á Englandi og stigu þar sín fyrstu spor á leiklistarbrautinni. Síðan þá hafa þeir unnið mörg stórvirkin en hæstum hæðum hafa þeir náð í samvinnu. Þættirnir um Blackadder hefðu vart verið svipur hjá sjón án þeirra, hvað þá Jeeves & Wooster. Færri þekkja ef til vill gamanþættina A Bit of Fry and Laurie en þeir eru vel þess virði að komast í með hvaða tiltækum ráðum sem er. Hjá Fry og Laurie mætast tveir bestu eiginleikar Englendinga: fágun sem byggir á aldagömlum merg í bland við nístandi kaldhæðið grín, gjarnan með töluvert súrrealískum blæ.

Þessa dagana þjóna þeir félagarnir okkur á sjónvarpsskjánum sem fulltrúar sumars og vetrar. Fyrsta röðin af þáttunum Kingdom, þar sem Fry leikur samnefndan hjartahlýjan lögmann í enskum smábæ, hefur runnið sitt skeið á enda og við tekur dóphausinn mannasiðalausi dr. House, sem Laurie ljáir líf í samnefndum amerískum þáttum. Sem fyrr eru blóðbræðurnir eins og tvær hliðar á sama peningi. Gæðablóðið Peter Kingdom getur ráðist á mann með kjaftshöggi og bitið hann í fótinn meðan Gregory House leggur starf sitt og orðspor að veði til að bjarga lífi sjúklinga sinna. Samt er Kingdom góði kallinn og House vondi kallinn. Fry hefur fyllt ágætlega upp í sjónvarpstóm sumarsins með mannlegri smábæjarnostalgíu en það er gott að vita að Laurie er mættur með sinn safaríka durt til að halda okkur við kassann í vetur. Smjatt.

Því er við að bæta að hér á síðunni var fyrir tveimur vikum fjallað um málarana Atla og Gísla, sem gert hafa garðinn frægan í auglýsingum. Þar voru þeir sagðir danskir og einkalífi þeirra lýst í þaula en í raun eru þeir íslenskir og einkahagir þeirra dálkahöfundi að mestu ókunnir. Heimildir blaðsins reyndust því ekki áreiðanlegar að þessu sinni.