25.10.06

Gæði

Það vantar gæðið í þennan texta. Nei, fyrst orðið gæðastjórnun er til hlýtur gæði að vera karlkynsorð, þannig að það vantar gæðann í þennan texta. Ef við gefum okkur að gæði sé eintöluorð.

24.10.06

Traun

Dóttir mín er yndisleg. Hún er ljós yfirlitum og fögur, geðprúð með afbrigðum, athugul og skemmtileg. Í dag hefur hún hins vegar verið í pirraðra lagi og varð það, ásamt útlitseiginleikum hennar sem áður er lýst, til þess að mér rifjuðust upp orð í þekktu verki frægs manns sem skrifaði á ensku.
Ef enginn kveikir kemur önnur vísbending á miðnætti. Að sjálfsögðu eru vegleg matarverðlaun í boði.

---------

Önnur vísbending: Nokkrar kynjaverur segja frasann í sameiningu. Hann er þrjú orð sem eru síðan endurtekin í öfugri röð. Frasinn lýsir aldeilis viðsnúnu gildismati.

19.10.06

Hundaklifberar

Á nýmjólkurfernu frá "MS Reykjavík" stendur:

"Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi

Meðan tún voru þýfð og þjóðleiðir lítt greiðfærar kom það fyrir að farartæki þess tíma, hestar, kerrur og sleðar, lentu á þúfu eða steinnibbu með þeim afleiðingum að menn og klifjar snöruðust af. Þannig lýsir málshátturinn því þegar eitthvað mikið gerist af litlu tilefni. Enn eru menn að leggja stein í götu náungans í þeim tilgangi að fella hann á ferð sinni. Þar er sem betur fer ekki alltaf úr háum söðli að detta, og mýkir það nokkuð fallið."

Þetta er alveg glatað. Maður skrifar ekki "klifjar" með einföldu i-i og allra síst við hliðina á slagorðinu "Íslenska er okkar mál" utan á mjólkurfernum. Þess utan hefði ég haft semíkommu í staðinn fyrir kommu á eftir "tíma" og sleppt kommunni á undan "og" (sem er reyndar ekki algild regla vegna innskotssetninga) en það skiptir minna máli.

17.10.06

You do not talk about Chess Club

Skáklúðar hafa gaman af þessu. Líka þeir sem finnst skákmenn vera lúðar. Og þeir eru fáir sem falla ekki að minnsta kosti í annan flokkinn.

15.10.06

Pólitísk lausn

Áhyggjur af pólitískum njósnum? Óþarfi að láta rannsaka það, pólitískt skipuð nefnd sér um málið. Eru þá ekki allir sáttir?

13.10.06

The Stooges (Slight Return)

Hér er ansi skemmtileg lesning, ekki síst fyrir þá sem sáu The Stooges í sumar. Á öftustu síðu má til dæmis finna tillögu að raunveruleikaþætti sem væri gaman að sjá verða að veruleika.

10.10.06

Peningasóun og rugl

Yoko Ono kemur til Íslands til að auglýsa sjálfa sig sem friðarsinna, með vörumerkið John Lennon í farteskinu eins og venjulega, og fær að setja upp einhverja ljóssúlu í Viðey. Þetta kostar Reykjavíkurborg fimmtán milljónir og Orkuveitu Reykjavíkur fimmtán milljónir.

Þrjátíu milljónir af almannafé.

Í eina ljóssúlu í Viðey.

HÆTTIÐ AÐ EYÐA PENINGUNUM OKKAR Í SVONA HELVÍTIS RUGL!

Djöfullinn hafi það.

8.10.06

Tilvitnun

"With the greater part of rich people, the chief enjoyment of riches consists in the parade of riches, which in their eye is never so complete as when they appear to possess those decisive marks of opulence which nobody can possess but themselves."
- Adam Smith í Auðlegð þjóðanna

7.10.06

Íðorðafræði

Mogginn kann greinilega ekki við að kalla forgarð helvítis sínu rétta nafni. Ég get reyndar ekki sagt að ég áfellist hann blessaðan.

3.10.06

Firring

Á vef Þjóðkirkjunnar er meðal annars að finna þessa grein eftir Bryndísi Möllu Elídóttur, sem inniheldur þessar línur:


"Allt barnastarf kirkjunnar hefur það að markmiði að leiða börnin til fundar við Jesú Krist frá Nasaret. Sagðar eru sögur af honum úr Nýja testamentinu en einnig sögur af hetjum Gamla testamentisins sem gefa Spiderman og Batman ekkert eftir. Það sem gerir starf kirkjunnar sérstakt er að allt sem fram fer er byggt á raunverulegum atburðum."


Það er ágætt að fá það á hreint að barnastarf kirkjunnar snýst ekki um "trúarbragðafræðslu", eins og oft er haldið fram, heldur er það einfaldlega trúboð. Markmiðið er að kristna börn. En raunverulegir atburðir? Að vissu leyti er Biblían sagnfræðileg heimild, ekki síst um siðferðisvitund þjóða fyrir botni Miðjarðarhafs fyrir tvö til þrjú þúsund árum, sem sumir telja að við eigum að hafa til hliðsjónar við mótun okkar eigin samfélags. Við skulum hins vegar hafa það á hreinu að Biblían er ekki fræðirit um sagnfræði.

Bryndís Malla er í hópi fólks sem hefur atvinnu sína af því að gera veg kristninnar sem mestan, í skjóli mismununar trúar- og lífsskoðana hérlendis. Ég frábið mér hins vegar svona þvælu og vona að ég þurfi ekki að berjast gegn því þegar dóttir mín kemst á leikskólaaldur að þetta verði haft fyrir henni að okkur foreldrum hennar forspurðum.