Firring
Á vef Þjóðkirkjunnar er meðal annars að finna þessa grein eftir Bryndísi Möllu Elídóttur, sem inniheldur þessar línur:"Allt barnastarf kirkjunnar hefur það að markmiði að leiða börnin til fundar við Jesú Krist frá Nasaret. Sagðar eru sögur af honum úr Nýja testamentinu en einnig sögur af hetjum Gamla testamentisins sem gefa Spiderman og Batman ekkert eftir. Það sem gerir starf kirkjunnar sérstakt er að allt sem fram fer er byggt á raunverulegum atburðum."
Það er ágætt að fá það á hreint að barnastarf kirkjunnar snýst ekki um "trúarbragðafræðslu", eins og oft er haldið fram, heldur er það einfaldlega trúboð. Markmiðið er að kristna börn. En raunverulegir atburðir? Að vissu leyti er Biblían sagnfræðileg heimild, ekki síst um siðferðisvitund þjóða fyrir botni Miðjarðarhafs fyrir tvö til þrjú þúsund árum, sem sumir telja að við eigum að hafa til hliðsjónar við mótun okkar eigin samfélags. Við skulum hins vegar hafa það á hreinu að Biblían er ekki fræðirit um sagnfræði.
Bryndís Malla er í hópi fólks sem hefur atvinnu sína af því að gera veg kristninnar sem mestan, í skjóli mismununar trúar- og lífsskoðana hérlendis. Ég frábið mér hins vegar svona þvælu og vona að ég þurfi ekki að berjast gegn því þegar dóttir mín kemst á leikskólaaldur að þetta verði haft fyrir henni að okkur foreldrum hennar forspurðum.
<< Heim