22.2.05

Túrismi 101

Íslendingar eru á villigötum, eins og gjarnan. Engin leið að sættast á hvað eigi að vera auðn og hvað eigi að vera skítugur óafturkræfur iðnaðardrulluhraukur, engin stefnumörkun í túrhestamennsku, sem þó ætti að vera ein gleðinnar gandreið. Flugeinokunarvaldið melludólgast á útlendum auglýsingamarkaði með klassíkina um að íslenskt kvenfólk ríði lífskraftinn úr forljótum og feitum útlendingum á fyrstu helgi sem þeir drekka sig fulla í ljótustu borg Evrópu að kolanámuhéröðum Póllands og Norður-Englands undanskildum. Hér eru nokkrar laufléttar uppástungur til að rífa þetta upp:

Seljum veiðileyfi á rollur. Ótrúlegt að það sé púkkað upp á þessi kvikindi. Kengtuggið landið fýkur burt og þjóðvegirnir eru stórhættulegir meðan ekkert selst af ofmetnu ullarbragðskjöti. Þær skjátur sem lífsþreytt byssuviðrini ná ekki að skjóta fá bara að svelta í hel og drýgja hálendisjarðveginn. Göfugt. Þetta væri séríslenskt sport, og það er víst rosalega æðislegt og móðins fyrir útlendinga til að finnast Ísland ógeðslega flott. Reynum að koma þessu drasli í verð einhvern veginn.

Flytjum inn lamadýr. What the fuck, flytjum inn öskurapa, krókódíla, strúta, kómódódreka, belgfroska, skógarbirni, salamöndrur, hlébarða og mannætuplöntur. Píranafiska í Þingvallavatn, hýenur og hrægamma á Kjöl, letidýr í Hveragerði. Svo lifir bara það sem lifir. Eru ekki allir örugglega komnir með drullu af þessari ömurlega aumingjalegu fánu hérna?

Leggjum niður skatta. Ef við ætlum að mella okkur út á eigin kostnað í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að sleikja rassgatið á þessum morðóðu trúarvitleysingum í Bandaríkjunum getum við alveg eins hætt að þykjast vera góðu gæjarnir og farið að moka inn pening sem skálkaskjól fyrir alþjóðleg glæpafyrirtæki eins og Hannes Hó lagði einhvern tíma til. Þá getum við lagt niður sjávarútveginn og fengið frið fyrir þessu endalausa rifrildi um kvótakerfið. Ísland – ríkazt í heimi!

Málum sem flest hús rauð. Eða græn. Eða bleik. Eða gul. Eitthvað annað en þennan gráma sem gerir það að verkum að maður tekur varla eftir þoku sem er samt svo þykk að það væri hægt að halda ratleiknikeppni í 101 þar sem enginn útlendingur myndi komast á barinn nema fyrir örlagagrís. Það var sorglega fyndið þegar Danirnir í Thule-auglýsingunni um árið horfðu yfir borgina af toppi Perlunnar og spáðu í hvað hún væri lík Legolandi. Engin smá litadýrð maður.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim