25.5.07

Aðeins hinir hæfustu lifa af

Við lifum í hörðum heimi. Reyndar var ástandið verra fyrr á öldum, þegar bókstaflega ekkert var í sjónvarpinu í heilan mánuð samfleytt á hverju ári og matarmenning Íslendinga einskorðaðist við nautahakk og soðnar kartöflur, kjötbollur og soðnar kartöflur og soðna ýsu og soðnar kartöflur. Í dag erum við Íslendingar orðnir málsmetandi aðilar í samfélagi þjóðanna og kippum okkur ekki upp við að borða framandi mat eins og sushi með soðnum kartöflum. Sjálf höfum við lagt kokkteilsósuna af mörkum til alheimsmatarsamfélagsins. Geri aðrir betur.

En þetta var nú smá matartengdur útúrdúr. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir öll okkar veraldlegu gæði og siðmenningu erum við ennþá villidýr sem berjast við hvert annað fyrir tilverurétti sínum og það kemur vel fram á skjánum. Sú kenning Charles Darwin að hinir hæfustu lifi af er orðin yfirþyrmandi í sjónvarpsþáttum. Það hefur verið vitað síðan á steinöld að hinir sætustu lifa af, þannig að það er tilvalið og klassískt að sýna fegurðarsamkeppni í sjónvarpinu. Á síðari árum höfum við fengið þætti eins og Survivor, America´s Next Top Model, American Idol, Big Brother, So You Think You Can Dance?, Project Runway og The Apprentice, sem snúast allir um að útrýma hinum keppendunum og standa einn eftir. Enginn veit hins vegar hvernig hárið á Donald Trump hefur lifað af.

Sjálfur er ég með hugmynd að raunveruleikasjónvarpsþætti í anda Darwins sem ég held að gæti orðið æsilegt sjónvarpsefni, svo æsilegt að ég myndi ekki einu sinni þora að horfa á. Hann myndi heita “Karaoke Survivor”, eða “Karókí til hinsta manns”, og gengi í stuttu máli út á að þrjátíu keppendur yrðu læstir inni í sjónvarpssal með karókítæki og skiptust á að syngja diskólagið “I Will Survive” þangað til aðeins einn væri eftir uppistandandi. Hann yrði síðan að sjálfsögðu beðinn um að syngja sigurlagið einu sinni í viðbót.