17.5.07

Ein þjóð - ein stjórn - einn valkostur

Undanfarið hafa verið gerðar kannanir á því hvaða ríkisstjórn fólk vilji, fyrir utan þessa á laugardaginn sem kallast alþingiskosningar. Þessar kannanir eru einskis nýtar.

Fólki er gefinn einn kostur, sem er hlægileg smækkun á raunverulegum möguleikum. Til dæmis notaði einhver (minnir að það hafi verið Björn Bjarnason en er ekki viss) það um daginn sem einhvers konar rök eða mælskubragð að aðeins tvö prósent kosningabærra landsmanna vildu Kaffibandalagið, þ.e. hugsanlega ríkisstjórn Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra. Þetta finnst sumum ekkert athugavert af því að þetta kom fram í könnun.

En við hverju býst fólk? Það má nefna einn möguleika. Er óskaríkisstjórn þeirra sem kjósa Samfylkinguna með VG og Frjálslyndum? Er óskaríkistjórn kjósenda VG með Samfylkingu og Frjálslyndum? Er óskaríkisstjórn kjósenda Frjálslynda flokksins með Samfylkingu og VG? Þetta eru miðlægur jafnaðarmannaflokkur, vinstriflokkur og ... eitthvað sem ég kann ekki að skilgreina almennilega, afturhaldssinnaður þjóðernisflokkur var ein uppástungan. Þessir flokkar eiga ekkert sérstaklega margt sameiginlegt annað en stjórnarandstöðuna. Samfylkingarfólk vill margt stjórn með Sjálfstæðisflokknum, Vinstri græn vildu helst í bjartsýni fá tveggja flokka vinstristjórn og Frjálslyndir sennilega eitthvað annað en tvo vinstriflokka að nafninu til.

Viltu vinna milljón? Ég vil það gjarnan. Það þýðir samt ekki að ég vilji ekki vinna hálfa milljón. Eða fimm milljónir. Eða bara góðan kaupréttarsamning.