9.5.07

Saga úr Vesturbænum

Fyrir skemmstu ók ég framhjá Hótel Sögu, austanmegin. Sá ég þar aftan á hjólreiðamann sem var með þennan líka dúndrandi fína iðnaðarmann. Mér er næst að telja að hann hafi náð í það minnsta fjórðungi af heildargjánni fram að spöng, jafnvel nær þriðjungi. Ég greip samstundis til símans míns, sem er einnig tækifærismyndavél, slökkti á græjunum til að styggja ekki viðfangið og skrúfaði niður rúðuna. Síðan miðaði ég eins vandlega og mér var unnt - en gætti þess í hvívetna að hafa alla aðgát við aksturinn - og smellti af. Skilyrði á staðnum til að meta gæði myndarinnar voru ekki með besta móti og tæknilegir örðugleikar komu í veg fyrir að ég næði að taka aðra. Örlögin höguðu því þannig að ég fór fram úr hjólreiðamanninum nálægt bílaplaninu við Þjóðarbókhlöðuna og beygði til vinstri í átt að Birkimel. Ég fór ekki hraðar en svo að ég sá vel framan í manninn þar sem hann nálgaðist Bókhlöðuna og tók eftir því að hann var afar glaður í bragði. Það þótti mér vænt um.
Svo fann ég mér stæði og lagði bílnum. Við nánari athugun virtist mér myndin ekki hafa heppnast vel þó að hugsanlega megi með góðum vilja greina eitthvað af því sem ég reyndi að skjalfesta.Vissulega hefði ég viljað ná betri mynd. En ég sá þó þennan ljómandi fína iðnaðarmann eigin augum, á kyrrum og mildum maímorgni í Vesturbænum. Fyrir það er ég þakklátur.