Eiríkur Hauksson Schrödingers
Erwin Schrödinger hét maður. Hann var austurrískur eðlisfræðingur og nóbelsverðlaunahafi sem vann sín helstu afrek á sviði skammtafræðinnar á fyrri hluta síðustu aldar og er minnst nú á dögum fyrir hugsunartilraun. Ímyndum okkur einangrað hólf sem geymir kött og agnarlítinn bút af geislavirku efni. Helmingslíkur eru á að ein eða fleiri frumeindir af efninu hafi klofnað þegar klukkustund er liðin, en það drepur köttinn. Hins vegar ber að taka með í reikninginn að hólfið er lokað og engin leið er að komast að því hvort þetta gerðist eða ekki nema hafa áhrif á framgang tilraunarinnar. Samkvæmt einni túlkun skammtafræðinnar er raunveruleikinn tvíklofinn og kötturinn er lifandi og dauður í senn, hversu furðulegt sem það kann að virðast.Þegar þessi pistill er ritaður er fimmtudagur og enn ekki komið í ljós hvernig fer hjá Eiríki Haukssyni og leðurfrakkanum í undanúrslitum Eurovision-söngvakeppninnar. Þegar lesendur fá blaðið í hendurnar er hins vegar kominn föstudagur og á allra vitorði hvort Eiríkur komst í úrslitakeppnina eða ekki.
Möguleikarnir eru tveir. Annars vegar hefur Eiríkur komist áfram, þökk sé sprúðlandi karlmennsku og kynþokka, og Evrópa öll er heilluð af kraftmiklum flutningi hans á hinu frábæra rokklagi Sveins Rúnars Sigurðssonar, Valentine Lost. Skotheldur pakki. Íslenska þjóðin er alsæl en ekki sérstaklega undrandi, enda höfðu veðbankar spáð framlagi Íslands góðu gengi. Úrslitakvöldið lofar góðu og allir eru búnir að birgja sig upp af grillmat og búsi svo þeir geti fagnað fyrsta sigri Íslands í Júróvisjón og góðum úrslitum í alþingiskosningunum strax á eftir. Hins vegar var Eiríki hafnað af afturhaldssömum austur-evrópskum og balkönskum smásálum sem fatta bara ekki góða músík. En það skiptir engu máli því það er ekkert að marka þessa keppni. Það að láta kjósa besta lag í Evrópu er auðvitað jafn fáránlegt og ímyndaður köttur sem er fimmtíu prósent lifandi og fimmtíu prósent dauður.
<< Heim