23.3.07

Fyndnasti maður Íslands

Góða kvöldið, góðir gestir! Og aðrir! Gaman að sjá ykkur svona mörg saman komin hérna! Já, líka ykkur úr Kópavoginum. Ha ha ha! Nei, bara létt grín. Þið eruð frábær. Það er fínt fólk sem býr í Kópavoginum. Takk fyrir, takk fyrir. Annars var ég að pæla, þetta með Kópavoginn, hafið þið einhvern tímann reynt að rata í Kópavogi? Það er alveg vonlaust! Hvað er eiginlega málið með það??? Takk fyrir. Svo er annað sem ég hef tekið eftir, þegar ég er úti að keyra í umferðinni, ég geri nefnilega töluvert af því, ég meina hver gerir það eiginlega ekki, það er með þessi bílnúmer! Þú veist, hvað er málið? Einu sinni var bara einn stafur, Reykvíkingar voru með R, Akureyringar voru með A, en Hafnfirðingar voru með G! Hvað var eiginlega málið með það??? Ha? Pælið í því! Svo núna, ha, þá eru tveir stafir. Hvað er eiginlega málið með það??? Af hverju eiginlega tveir stafir? Er það eitthvað betra? Sko, ef einhver er með númerið MO eitthvað eitthvað eitthvað, er hann þá úr Mosfellsbæ? Hvað eru þeir eiginlega að hugsa í samgönguráðuneytinu??? Ha, ha. Já, takk fyrir. Það er gott að vera hérna í kvöld, þið eruð alveg frábærir áhorfendur. Nei, í alvöru. Af öllum sem ég hef verið með svona standöpp fyrir get ég sagt, alveg í fullri hreinskilni, að þið eruð tvímælalaust þau nýlegustu. Ha ha ha! Nei, ég er ekkert að djóka með þetta! Annars, svo ég fari nú úr einu í annað, hvað er eiginlega með þessa GSM-síma? Það er kannski einhver að labba bara í hægðum sínum framhjá manni, að tala á fullu í GSM-síma! Svo er maður kannski úti að keyra, þá er gaurinn í næsta bíl að tala í GSM-síma! GSM-símar úti um allt! Það eru allir að tala í GSM-síma! Mamma mín er að tala í GSM-síma! Hvað er eiginlega málið með það???