Skyttan tæmir hlaupið gegn Tankinum
Meistaradeild Evrópu í fótbolta er furðulegt fyrirbæri. Stór hluti hennar er útsláttarkeppni, þannig að hún er í rauninni ekki deild. Við gætum eins talað um heimsmeistaradeildina sem haldin er á fjögurra ára fresti. Sum lönd eiga fjögur lið í keppninni, eins og England þangað til Arsenal datt út í fyrrakvöld, þannig að ekki komast aðeins meistarar í Meistaradeildina, eins og heyrðist í auglýsingu um árið. Svo eru lið frá Ísrael aufúsugestir eins og í Eurovision þannig að ekki takmarkast valið við Evrópu. Merkilegt.Þá er ekkert eftir nema sjálfur fótboltinn en það eru gömul sannindi að í þeirri íþrótt er ekkert gefið nema spjöldin. Í gamla daga var talið að boltinn væri hnöttóttur og leikurinn níutíu mínútur en það hefur síðan verið hrakið. Nú vitum við líka að leikurinn snýst ekki bara um að koma boltanum oftar í net andstæðinganna en sitt eigið, heldur er einnig mikilvægt að setja leiksýningu á svið fyrir dómarann, grípa sér um höfuð við hvert tækifæri og komast í snertingu við náttúruna með því að velta sér upp úr grasinu eins og á Jónsmessunótt. Listrænt og vistvænt.
<< Heim