23.1.07

Yfirnáttúrulegir hæfileikar

Enn heldur kraftaverkamaðurinn Þórhallur miðill áfram að toppa sjálfan sig. Fyrir þá sem sáu ekki hinn frábærlega vandaða þátt Sjálfstætt fólk í gærkvöld var fjallað um þá Kormák og Skjöld, sem eru þjóðkunnir fyrir rekstur herrafataverslunar og nú ölstofu sem báðar bera nöfn þeirra. Auk þess er Kormákur þekktur fyrir að hafa leikið á trommur með hljómsveitum á borð við Q4U og Langa Sela og Skuggana. Nú, í svona þætti er rétt að leyfa stórkostlegum hæfileikamönnum eins og Þórhalli að leika listir sínar. Hann fékk sumsé að setjast við hliðina á Kormáki og svo skrúfaði hann bara frá yfirnáttúrulegum hæfileikum sínum til að sjá hluti sem eru utan næmis venjulegs fólks: "ööö... já... ég hérna sé eitthvað svona... föt... það eru föt... já... það er nú ekki alveg nýtt, sko. nei. ekki Armani... hahaha. eitthvað svona... já. föt. mikið af fötum í kringum þig." Það er sannarlega ótrúlegur eiginleiki að sjá það að einhver tengist fötum, jafnvel þó að viðkomandi sé reyndar landskunnur fyrir föt. Jafnvel ótrúlegri eiginleiki en að finna það á sér að í fimmtíu manna hópi sé hugsanlega einhver sem þekkti einhvern sem hét Guðmundur eða Guðrún, sem sendir jákvæðar tilfinningar en finnst viðkomandi vera latur að vaska upp eða lélegur bílstjóri. Ég bíð spenntur eftir að Þórhallur mæti í þáttinn hjá Hemma Gunn og segi honum að hann sjái eitthvað svona... sjónvarpsþátt... tala... við fólk. á tali... nei. borvél... frændi minn... einn heima... frystihús... þvotta... bali?! já, nei. sólhlíf. átta... villtur??