13.12.06

Sérfræðiálit

Í Ipswich í Suffolk á Suðaustur-Englandi fundust tvö lík af ungum konum í dag og að minnsta kosti fimm konur hafa orðið fórnarlömb sama morðingjans á aðeins nokkrum vikum. Lögreglan skoðar fleiri óupplýst morðmál sem gætu tengst þessum. Þetta eru miklar fréttir, enda er svona tíðni hjá einum morðingja fáheyrð og Englendingar muna margir ennþá vel eftir hryllingnum kringum Yorkshire-morðingjann Peter Sutcliffe, sem gekk laus í meira en fimm ár og myrti þrettán konur á þeim tíma. Aldarfjórðungur er liðinn síðan hann náðist en samt man ég vel eftir umtalinu um málið. Ýmislegt virðist reyndar svipað með þessum morðingjum: Sutcliffe drap aðallega vændiskonur og skildi þær eftir á víðavangi en eftir því sem hann missti stjórnina urðu aðrar konur líka fórnarlömb hans. Hvorugur morðinginn virðist heldur hafa beitt kynferðislegu ofbeldi, fyrir utan eitt tilfelli hjá Sutcliffe að mig minnir.

Í svona málum eru margir kallaðir til að deila þekkingu sinni og/eða skoðunum og einn slíkur vakti sérstaka athygli mína í kvöld. Glæpaskríbent Daily Mirror var í viðtali á Sky News og hafði meðal annars þetta að segja:

"What's worrying is that with prostitutes taking measures to defend themselves or staying off the streets, innocent ordinary girls may fall victim to the killer."

Árið er 2006, gott fólk.