10.11.04

Ósmekklegur titill nauðsynlegur

Nú þegar menn eru að spá í hversu langt sé verið að ganga í að fylgjast með banalegu/dauðastríði/veikindum Arafats rifjast upp fyrir mér sagan "The Secret History of World War III" en það er ein af eintómum góðum í þessari bók sem ég hef vonandi grafið í kassa einhvers staðar niðri í geymslu. Í sögunni eru fjölmiðlaheilaþvotturinn, firringin, múgsefjunin og allt heila geðfötlunarklabbið komið á það stig að það eina sem kemst að í fjölmiðlum eru frásagnir af innyflastarfsemi og helstu lífsmerkjum Reagans forseta. Þriðja heimsstyrjöldin flýtur framhjá án þess að neinn taki eftir, enda fjarstýrð einhvers staðar úti í rassgati.
En ef einhverjum hefur dottið það í hug, þá gerist það áður en maður á von á. Tökum Being There sem dæmi. Þroskaheftur maður með soundbyte-hæfileika verður (kannski) forseti Bandaríkjanna. Aldeilis óhugsandi pæling það. Síðan hefur þróunin verið Reagan - Quayle (næstum því) - W. Þrjátíu árum eftir að bókin kemur út er forsetinn að rembast við að lesa fyrir litla skólakrakka einhvers staðar úti í sveit meðan verið er að rústa skýjakljúfum í New York. Hver hefði þá ekki viljað spóla aftur nokkra mánuði og fá Chauncey Gardiner í embættið?
Og hvað er þá langt þangað til háð verða mannskæð stríð án þess að við fréttum af því að það er of mikið af einhverri annarri drullu í fréttunum, eins og hvert Justin Timberlake og Cameron Diaz ætla í jólafríinu eða hvort fjármögnun fæst fyrir sjálfheldinn kergjunartank á Sultartanga úr viðlagasjóði eða eitthvað? Stríð sem er ekki minnst á í fjölmiðlum? Æi, mín mistök. Ég er greinilega orðinn syfjaður. Góða nótt.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim