26.11.04

62 ára í dag

Jimi Hendrix, fæddur Johnny Allen Hendrix í Seattle í Bandaríkjunum 27. nóvember 1942, nafni síðar breytt í James Marshall Hendrix, hefði orðið 62 ára í dag. Áður en hann lést í Lundúnum 18. september 1970 af ofneyslu áfengis og svefnlyfja auk mistaka sjúkraflutningamanna, 27 ára gamall, hafði hann slík áhrif á tónlistarsöguna að æ síðan hefur nafn hans verið sjálfvalið efst á hvern lista yfir bestu gítarleikara allra tíma.

Hendrix var sonur Al Hendrix, sem eitt sinn vann í ferðasjói Louis Armstrong, og konu hans Lucille, sem lést af gjálífi fyrir aldur fram. Á unglingsárum rakst hann illa í skóla og komst í kast við lögin fyrir að stela bílum og þvíumlíkt, en lærði sem betur fer á gítar þess utan. Til þess að komast í herinn þegar hann var sautján ára laug hann til um aldur og tók út tíma í fallhlífahersveit í Kentucky.

Þegar hann losnaði úr hernum eftir að hafa ökklabrotnað í stökki hóf hann að þvælast um Bandaríkin og spila með ýmsum hljómsveitum á búllum sem voru mestmegnis fyrir "litaða". Meðal þeirra sem hann lærði sjóbissnessinn hjá á þessum tíma voru Little Richard, Ike og Tina Turner, Wilson Pickett og The Isley Brothers. Ótrúleg færni hans naut sín ekki til fulls í þessu harki, enda var foringjaveldið þvílíkt að þegar Jimi og annar meðlimur í hljómsveit Little Richard keyptu sér litskrúðugar skyrtur til að klæðast á sviði brjálaðist Richard og rak þá umsvifalaust úr bandinu með þessum orðum: "Nobody in this band is allowed to look pretty except for me!"

Árið 1966 var hann kominn til New York og og hafði sett saman hljómsveit sem hann kallaði Jimmy James and the Blue Flames og spilaði í Greenwich Village. Eitt kvöldið var Chas Chandler, fyrrverandi bassaleikari The Animals, meðal áheyrenda og trúði því varla að gítarleikarinn á sviðinu væri ekki með samning neins staðar. Eftir fortölur fékk hann Hendrix til að koma með sér til Englands, þar sem planið var að gera hann að stórstjörnu.Þegar komið var til Englands voru Mitch Mitchell, sem áður hafði spilað á trommur með Georgie Fame, og Noel Redding, atvinnulaus gítarleikari sem féllst strax á að spila á bassa þegar hann heyrði Hendrix spila, fengnir til liðs við Hendrix og nýja hljómsveitin var kölluð The Jimi Hendrix Experience.

Þrátt fyrir að Hendrix hefði fram að þessu aldrei skrifað einn einasta lagstúf, svo vitað sé, fór hann að hrista lög fram úr erminni (eftir að fyrsta smáskífan, kóver af standardinum Hey Joe, kom út) og Experience tók klúbbasenuna í London með trompi. Bítlarnir, Stones, The Who, Eric Clapton... allir voru dolfallnir yfir snilldinni, sóttu klúbbana sem Experience spilaði á af áfergju og litu á Hendrix sem jafningja eða vel það. Eins og Clapton orðaði það á þessum tíma: “I’ve got a lick that’s better than Jeff Beck’s, and he’s got a lick that’s better than mine, but Jimi Hendrix is better than either one of us.”

Þá var bara næsta skref að ná völdum yfir Bandaríkjunum, og með góðra vina hjálp gekk það fljótlega eftir. Þegar John Phillips í The Mamas and the Papas ákvað að halda glæsilega tónlistarhátíð í Monterey í Norður-Kaliforníu um sumarið 1967, á slóðum skáldsagna Johns Steinbeck, hafði Paul McCartney samband við hann og hvatti hann eindregið til að leyfa The Jimi Hendrix Experience að koma fram. Þá var fyrsta plata sveitarinnar, Are You Experienced?, komin út í Bretlandi, en hún hefur yfirleitt verið í fyrsta sæti á listum yfir þær plötur sem hafa haft mest áhrif á gítarleik í rokki. Það gekk eftir og Brian Jones, krónprinsinn í Rolling Stones, kynnti bandið fyrir skaranum. Eftir ótrúlegt níu laga sett sem innihélt meðal annars algjört hernám á Like a Rolling Stone eftir Bob Dylan og endaði á súrrealísku niðurrifi á Troggs-slagaranum Wild Thing, kveikti Hendrix í gítarnum og braut hann síðan í mask á sviðinu. Það er óhætt að fullyrða að aldrei hafi sést eða heyrst viðlíka frammistaða rokkhljómsveitar á sviði.

Framinn varð álíka skjótur í Bandaríkjunum og sveitin túraði með Engelbert Humperdinck og The Monkees, eins fáránlega og það hljómar. Um jólin kom út önnur breiðskífa, Axis: Bold as Love, sem var engu síðri en sú fyrri. Keyrslan var hins vegar gífurleg og fyllerí og dópneysla margfölduðust með frægðinni. Sumarið 1968 kom út meistarastykkið, hin tvöfalda Electric Ladyland sem var nefnd eftir stúdíóinu Electric Lady sem Hendrix var að byggja í New York. Platan er helst sambærileg við Hvíta albúm Bítlanna þegar kemur að fjölbreytni, þó að Hendrix hafi í sannleika sagt farið lengra þegar kom að því að búa til sinfóníur með hjálp stúdíotækni. Hún er þó í dag þekktust fyrir hina ótrúlegu útgáfu á laginu All Along the Watchtower, sem höfundurinn Bob Dylan reyndi í mörg ár að herma eftir, og Voodoo Chile (Slight Return).

Eftir að Electric Ladyland kom út hætti hljómsveitin The Jimi Hendrix Experience og fann Hendrix sér aldrei fastan mannskap í neinn teljandi tíma eftir það. Á Woodstock-hátíðinni í ágúst 1969 spilaði hann um mánudagsmorgun fyrir þá sem stóðu eftir í leðjunni og kom sér á spjöld sögunnar með einstakri útgáfu af bandaríska þjóðsöngnum, sem hann sagði síðar í spjallþætti Dick Cavett að hefði bara rifjast upp fyrir sér þegar hann hugsaði einn daginn aftur til skólaáranna. Engin plata með nýju efni kom út það árið.

Á nýársdag 1970 kom Hendrix fram í New York með hljómsveit sinni Band of Gypsys, þar sem gamall félagi hans úr hernum, Billy Cox, spilaði á bassa og Buddy Miles á trommur. Tónleikarnir voru síðar gefnir út á plötunni Band of Gypsys sem er vel þess virði að eiga fyrir lagið Machine Gun, hrikalega kraftmikið andóf gegn stríði. Bandið entist hins vegar mjög stutt og fljótlega var Mitch Mitchell aftur kominn í trommarasætið.

Í september 1970 gerist það svo að Jimi Hendrix deyr í Lundúnum. Hann er grafinn í Seattle að viðstaddri fjölskyldu og vinum. Síðan þá hefur komið út að því er virðist endalaust magn af plötum, enda var Hendrix vinnufíkill og ýmist að djamma í hljóðveri fram undir morgun eða ferðast um og spila. Fyrir fáum árum vann fjölskylda hans loksins mál um útgáfurétt á verkum hans og þýddi það betri tíð fyrir áhugamenn um tónlist hans, meðal annars útgáfu á plötunni First Rays of the New Rising Sun, sem flestir eru sammála um að sé nálægt því sem hann hafði í huga þegar hann dó. Tónleikaplöturnar eru margar hverjar frábærar og má nefna Jimi Plays Monterey, Live at Winterland, Hendrix in the West, The Jimi Hendrix Concerts, Experience, Jimi Plays Berkeley, Radio One, Live at Woodstock og Live at the Fillmore East.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim