2.6.06

Úr sarpinum

Jamm, ætli það sé ekki mánuður síðan síðasti bloggarinn skrifaði um tíu fyrstu lögin sem komu upp í lagasarpinum. Þá er tími til að ég leggi mitt í púkkið.

1. Creedence Clearwater Revival - Have You Ever Seen the Rain

Ég efast um að ég vinni neinar svalheitakeppnir með þessu lagi, en ég fattaði fyrir nokkrum árum að það hreyfir við mér. Mér finnst góð lög góð. Þetta er gott lag. Og það hefði smellpassað í semí-væmna senu í The Big Lebowski. Og það er hógvær Hammond í því.

2. Bruce Springsteen - Born to Run

Það ætlar þá að vera svona. Ég að uppgötva að ég elska sveitt og táfúlt amerískt rokk. Er eitthvað annað í fréttum? Þetta lag tekur reyndar frekar sýrða vinstri beygju í ofsalega hresst saxófónsóló. Furðulegt.

3. John Mayall's Bluesbreakers feat. Eric Clapton - All Your Love

Þetta er nú svolítið fyndið. Þetta er annars í grunninn fallegt en einfalt lag en svo kemur Clapton og hefur sjálfan sig upp í himinhvolfið þar sem einungis löggiltir gítarguðir hafast við. Það verður að spila þetta á fullu blasti og þá verður ekki flúin löngun til að drekka bjór og píra augun í nautn.

4. The Rolling Stones - Just Wanna See His Face

Vó! Þetta er algjörlega nauðsynlegt lag. Grúv lengst neðan úr milljón stiga hita með viskílykt í kjallaranum hans Keiths á Rivíerunni. Nokkrum sinnum hef ég fengið þetta lag á heilann þegar ég hef verið orðinn langeygur eftir að gæfan færi að snúast mér í hag. En það virkar við öll tækifæri. Ég held ég laumi því á fóninn næst þegar ég held partí.

5. Television - Venus

Alltaf þegar ég las þáttinn Rebellious Jukebox í Melody Maker voru allir að reyna að vera svalir með því að þykjast fíla Television. Ég hef aldrei fílað þetta band, þó ég hafi reynt. Það er eitthvað asnalegt við söngvarann og lögin grípa mig ekki. Fer ekki lagið að verða búið?

6. The Cure - A Strange Day

Þetta fílaði ég nú þegar ég var sautján. Núna er þetta bara melló og fínt en pínu langdregið. Gott gítarsánd.

7. The Rolling Stones - Can't You Hear Me Knocking

Stónsararnir bara aftur. Það er nú ekki hægt að setja út á það, þetta er alveg hrottalega pungsveitt. Feitasta riff allra tíma, sjúklega greddulegur gítarsamleikur, Hammond og viðlagið er svo hrikalega fantalega frábært að maður veit ekki hvernig maður á að vera. Og svo... og svo breytist þetta í einhvern fljótandi sambadjass sem er næstum því ennþá getnaðarlegri en fyrri hlutinn af laginu. Þetta fer á minn topp tíu yfir meistaralegustu og frábærustu lög allra tíma. Hvar væri heimurinn án Keef og Charlie Watts?

8. The Coral - Talkin' Gypsy Market Blues

Þetta eru nú hressir strákar frá Liverpool. Einar á heiður skilinn fyrir að lána mér plötuna sem þetta lag er af, Magic and Medicine, en þetta er langt frá því að vera besta lagið á henni. Samt gott, svolítil Bob Dylan-lykt af þessu og ágætt stuð.

9. Bob Dylan - It's All Over Now, Baby Blue

Það er eins og við manninn mælt! Stundum virka línurnar hans merkingarlausar og einfaldar, eiginlega barnalegar, en hann límir þær saman þannig að þær passa í söguna sem hann er að segja og maður sér með eigin augum hvað hann á við. Og þá er komið listaverk. Litla systir Like a Rolling Stone.

10. Wilco - I'm Always in Love

Æðislegt lag. Mér finnst Summerteeth með Wilco einhvern veginn alltaf hliðstæð Green með R.E.M. þannig að lögin eru grípandi en samt einhvern veginn tvíbent. Þetta kemur mér alltaf í gott skap, þó að merkingin í því sé ekkert endilega sérstaklega jákvæð.